Sótt að kvenfrelsi um allan heim

Þórunn,  kraginn, banner,

Baráttan fyrir frelsi kvenna snýst um yfirráð þeirra yfir líkama sínum og lífi. Að konur hafi sjálfsákvörðunarrétt í eigin lífi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður

Lögfesting réttinda og aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er forsenda þess að mannréttindi séu virt. Frelsi kvenna og sjálfsákvörðunarréttur fer einnig hönd í hönd með fjárhagslegu sjálfstæði þeirra. Oftar en ekki ræður fjárhagsleg staða kvenna miklu um raunverulegt frelsi þeirra.

Meirihluti Hæstaréttar Bandaríkjanna ákvað í liðinni viku um að nema úr gildi stjórnarskrárbundinn rétt kvenna til þungunarrofs. Það þýðir að þau réttindi eru nú háð ákvörðunum ríkisþinga. Nú þegar hafa lög tekið gildi í mörgum ríkjum sem leggja nær undantekningarlaust bann við þungunarrofi. Dómara og stjórnmálamenn varðar hvorki um nauðganir, sifjaspell né líf og heilsu kvenna. Þau eru drifin áfram af öfgasinnaðri bókstafstrú en ekki hugmyndum réttarríkisins. Það eiga þau reyndar sameiginlegt með bókstafstrúarmönnum um allan heim, hvort sem þeir tilheyra kristinni eða kaþólskri kirkju, íslam eða hindúisma. Bakslagið er víðar en í Bandaríkjunum eins og dæmin sanna en áfallið er þyngra þegar í hlut á land sem hefur lengið gefið sig út fyrir að vera í forystu lýðræðis i heiminum.

Um allan heim eiga kvenréttindi og mannréttindi minnihlutahópa í vök að verjast. Pólitísku ofbeldi vex ásmegin og réttarbætur sem sóttar hafa verið á liðnum áratugum eru í hættu. Það á líka við um mannréttindi hinsegin fólks.  Á Íslandi eru einungis þrjú ár frá því að Alþingi tryggði réttinn til þungunarrofs án takmarkana sem áður höfðu verið í gildi. Það var löngu tímabær og nauðsynleg réttarbót. Nú reynir á stjórnmálahreyfingar sem styðja kvenfrelsi og mannréttindi allra hópa í samfélaginu. Íslensk stjórnvöld verða að tala skýrt á alþjóðlegum vettvangi gegn þeim sem hrifsa mannréttindi af fólki. Við í Samfylkingunni munum ekki gefa neitt eftir í þeirri baráttu. Henni er sannarlega ekki lokið.