Það skiptir máli hver stjórnar

Helga Vala fréttabanner

Hvers virði er það að sitja í öndvegi við ríkisstjórnarborðið ef völdin sem því fylgja eru ekki nýtt?

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Það þarf að gera málamiðlun í stjórnarsamstarfi en þegar fórnirnar eru hjartans málin og þjónkunin er algjör má spyrja sig hvort þessir þrír flokkar sem nú skipa ríkisstjórn séu svo ólíkir þegar á reynir. Sú ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna að færa Héraðsvötn og Kjalölduveitu úr verndarflokki í biðflokk eru stórtíðindi og alls ekki eins léttvæg aðgerð og forsætisráðherra hefur viljað láta. Sú sátt sem rammaáætlun var ætlað að skapa byggir á þeirri grundvallarforsendu að náttúruverðmætum sé raðað í flokka út frá faglegum forsendum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir hefur hins vegar tekið ákvörðun sem gengur þvert gegn hugsjónum Vinstri grænna og gegn ráðleggingum fagfólks. Það má spyrja sig hvort um pólitísk hrossakaup sé að ræða en þá þarf að svara því hvað Vinstri græn fá fyrir kaupin?

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á Alþingi í gær sést að forgangsröðunin er hvorki vinstri né græn. Áætlunin mætir ekki því neyðarástandi sem ríkir í heilbrigðiskerifnu, fjármagnar ekki boðaða húsnæðisuppbyggingu, skapar ekki svigrúm fyrir breytingu á kjörum viðkvæmustu hópa samfélagsins né tryggir velferðarþjónustuna. Nú hefur líka komið á daginn að félagsmálaráðherra vinstri grænna nýtir ekki einu sinni það svigrúm sem veitt var í fjárlögum ársins 2022 til hækkunar atvinnuleysisbóta heldur er hækkunin lægri en samþykkt var.

Hvers virði er það að sitja við borðsendann þegar grundvallarmál sem áður voru í stefnu flokksins, eins og réttindi fólks á flótta, eru seld fyrir ráðherrastóla? Þegar ráðherrar í ríkisstjórn gera ekkert til að hafna breytingum á lögum sem skerða grundvallarrétt flóttafólks verulega og lofa liðsinni sínu við afgreiðslu máls út úr þingi? Er það og annað það sem hér hefur verið nefnt málamiðlun eða er þetta stefna flokksins sem leiðir ríkisstjórnina?