Til hamingju með daginn!

Kæru félagar!

Logi Einarsson Formaður Samfylkingarinnar

Í dag fögnum við lýðveldisafmæli Íslands og minnumst Jóns Sigurðssonar, sem manna mest og best barðist fyrir því að Íslendingar fengju stjórn eigin mála í eigin hendur. Við getum verið stolt af þessari sjálfstæðishetju okkar. Hann barðist ekki með aðferðum ofbeldis heldur með orðum og rökum og tilvísunum í gamla samninga. Hann var óþreytandi að telja viðsemjendur á sitt mál og stappa stálinu í þjóðina sína sem hann sá fyrir sér að myndi vaxa og dafna ef hún fengi frjálsa verslun og viðskipti næðu að blómstra við önnur lönd og atvinnuvegir þróast með eðlilegri þéttbýlismyndun. Hann taldi heldur ekki eftir sér alls konar fyrirgreiðslu við kjósendur sína, var á þönum að útrétta fyrir fólk, kaupa nælur og annað dót sem það vantaði og rak önnur erindi í höfuðborginni dönsku.

Ekki fór allt eins og hann sá fyrir sér en hitt er enginn vafi að fullveldið 1918 og síðar lýðveldisstofnunin 1944 var Íslendingum mikið gæfuspor.

Og þessu fögnum við í dag 17. júní. Við jafnaðarmenn höfum kannski ekki náð öllum þeim markmiðum á árinu sem við settum okkur, enda viljum við koma að stjórn landsins. Við höfum hins vegar verið skelegg og sjálfum okkur samkvæm á þingi og barist fyrir réttlætismálum. Sumu höfum við náð fram, eins og málinu sem Helga Vala Helgadóttir var fyrsti flutningsmaður að og snýst um lögbundna gjafsókn þolenda kynferðisofbeldis og heimilisofbeldis til að sækja skaðabætur. Hins vegar vitum við að núverandi stjórnarmynstur kemur í veg fyrir að jafnaðarstefnan ráði för við stjórn landsins. Í sveitastjórnarkosningunum í vor náðum við prýðilegum árangri víða og erum sem fyrr burðarstoðin í bæjarstjórnum þar sem félagslegar áherslur ríkja. 

Við horfum keik fram á veginn og hlökkum til að takast á við komandi verkefni, innlend og alþjóðleg –  því jafnaðarstefnan á svörin við þeim gríðarlegu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Gleðilega þjóðhátíð, kæru félagar!

Kær kveðja, Logi Einarsson.