Að skara eld að eigin köku -Tveggja bæjarstjóra Sveitarfélagið Árborg
Eftir sveitarstjórnakosningar í vor er orðið ljóst hversu mikið ósætti hefur ríkt innan raða sjálfstæðismanna í Árborg með bæjarstjóraembættið.
Vandræðagangurinn var slíkur að gripið var til þess undarlega úrræðis hjá hreinum meirihluta að skipta embættinu milli tveggja bæjarfulltrúa. Slíkt hefur sennilega ekki áður sést nokkurs staðar á byggðu bóli þar sem hreinn meirihluti eins stjórnmálaflokks er við völd í sveitarfélagi.
Á síðasta kjörtímabili fannst sjálfstæðismönnum ástæða til þess að minnast á það trekk í trekk með hæðnistón að fyrri meirihluti gæti aldrei orðið langlífur þar sem hann væri fjölflokka og myndi aldrei geta sýnt þá samstöðu sem þyrfti. Þrátt fyrir að fjögur framboð stæðu að þeim meirihluta reyndist mun einfaldara að skipa eðlilega í embætti ólíkt því sem nú er með einn flokk í hreinum meirihluta.
Nýr meirihluti virðist halda að bæjarstjórastarfið sé einhvers konar bitlingur svo að tryggja megi ákveðnum bæjarfulltrúum vegtyllur. Það er mikill misskilningur. Stærsta og mikilvægasta hlutverk bæjarstjóra er að vera yfirmaður allra starfsmanna sveitarfélagsins. Bæjarstjóri leiðir teymi starfsmanna til þess að markmið og skyldur sveitarfélagsins náist í öllum málaflokkum. Með því að skipta embættinu upp þá er ekki verið að hugsa um hagsmuni starfsmanna og sveitarfélagsins alls heldur er verið að hugsa fyrst og fremst um gott embætti fyrir einstaklinga. Það fór undarlega hljótt um þessar fyrirætlanir sjálfstæðismanna fyrir kosningar því sennilega vissu þau sem var að þetta yrði ekki líklegt til vinsælda hjá kjósendum.
Þreföldun á launum formanns bæjarráðs
Þar sem það getur bara verið einn bæjarstjóri í einu þá voru góð ráð dýr hjá nýjum meirihlutia í Árborg. Sá sem átti að verða bæjarstjóri en þurfta að lúta í lægra haldi sneri hins vegar vörn í sókn. Meirihlutinn ákvað að eðlilegast væri að þrefalda starfshlutfall formanns bæjarráðs svo hann gæti líka verið í fullu starfi við að stjórna sveitarfélaginu fyrst hann fékk ekki að vera bæjarstjóri. Fyrsta verk nýs meirihluta sjálfstæðismanna eftir kosningar varð sem sagt að tryggja formanni bæjarráðs 103,4% starfshlutfall sem bæjarfulltrúi (26,4%), formaður bæjarráðs (65%) og formaður tveggja nefnda, þar af önnur sem fundar tvisvar í mánuði (6% fyrir formennsku í nefnd, alls 3 fundir í mánuði) sem gerir mánaðarlaun upp á rúmar kr. 1.400.000. Svona lítur nú fyrsta rekstrarhagræðing meirihluta sjálfstæðismanna út.
Í svari meirihlutans við fyrirspurn um í hverju aukin verkefni formanns bæjarráðs fælust við þessa þreföldun á launum hans, hækkun úr 21% af þingfararkaupi í 65% af þingfarakaupi, er ekki að finna eina breytingu á verkefnum frá því sem verið hefur. Í upptalningu á hlutverki og verkefnum formanns bæjarráðs er ljóst að þar er eingöngu um að ræða verkefni sem aðrir eiga að hafa með höndum innan stjórnsýslunnar. Niðurstaðan er því sú að búið er að taka verkefni af bæjarstjóra og öðrum starfsmönnum sem þeir höfðu áður með höndum svo að formaður bæjarráðs geti verið í fullu starfi.
Bæjarfulltrúar eru ekki starfsmenn sveitarfélagsins
Nú er sem sagt svo komið að formaður bæjarráðs og bæjarstjóri sitja á sameiginlegri skrifstofu í Ráðhúsi Árborgar og horfast í augu. Aldrei áður hefur bæjarfulltrúum boðist skrifstofa eða skrifborð í Ráðhúsi Árborgar. Miðað við þann fjölda starfsmanna og þau miklu þrengsli sem eru í Ráðhúsinu þá sætir það furðu að formanni bæjarráðs skuli finnast við hæfi að vera þar með vinnuaðstöðu því hann er jú ekki starfsmaður sveitarfélagsins. Undirrituð bíða spennt eftir að fá úthlutað skrifborði í ráðhúsinu því það hljóta jú allir bæjarfulltrúar að eiga rétt á sömu starfsaðstæðum.
Það er merkilegt hvað mannskepnan getur sannfært sjálfa sig um. Á síðasta kjörtímabili var mesta vaxta- og framkvæmdatímabil sveitarfélagsins Árborgar frá upphafi vega. Þrátt fyrir það datt fyrri meirihluta það aldrei til hugar að þrefalda starfshlutfall formanns bæjarráðs. Verkefnin í stjórnsýslunni aukast að sjálfsögðu í samræmi við þann gríðarlega vöxt sem er staðreynd í Svf. Árborg og þá er eðlilegast að starfsfólki í stjórnsýslu sé fjölgað en ekki útveguð vinna fyrir bæjarfulltrúa í atvinnuleit.
Það er grafalvarlegt að slík grímulaus sjálftaka skuli vera fyrsta verk nýs meirihluta. Þetta heitir að skara eld að eigin köku og á aldrei að líðast.
Arna Ír Gunnarsdóttir
Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Svf. Árborg.
Greinin birtist í Sunnlenska 28. júní 2022