Fasismi á fínum fötum

Við lifum athyglisverða tíma. Í hverjum kosningunum á fætur öðrum fá stjórnmálaöfl sem eiga rætur að rekja til gamalla fasistaflokka eða jafnvel hreyfinga nýnasista stuðning stórs hluta kjósenda.

Jimmie Åkesson og Svíþjóðardemókratarnir fengu fimmtung greiddra atkvæða í kosningum til sænska þingsins fyrr í þessum mánuði. Allt bendir til þess að þeir séu orðnir stueren í sænskri pólitík, það er að segja í húsum hæfir.
Um helgina kusu Ítalir forystukonu Ítalska bræðralagsins, Giorgiu Meloni, að öllum líkindum í embætti forsætisráðherra í bandalagi við Matteo Salvini frá La Lega og Silvio gamla Berlusconi forystumann Forza Italia. Þau kalla sig miðhægri-bandalag en fátt bendir til annars en þau standi fyrir stæka hægri stefnu með öfgafullu ívafi. Áður höfum við fylgst með framgangi Marine Le Pen í Frakklandi og stjórnarháttum Viktors Orbán í Ungverjalandi, að ógleymdri alræðisstjórn Vladímírs Pútín í Rússlandi.
Hina nýju strauma í evrópskum stjórnmálum má kalla fasisma á fínum fötum. Yfirbragðið er brosandi fallegt en skilaboðin þegar grannt er skoðað ógeðfelld og sundrandi. Hinar nýfasísku hreyfingarnar nýta lýðhyggju (popúlisma) til að höfða til kjósenda með einföldum skilaboðum. En fasistar eiga það sameiginlegt að ráða ekki við stærstu verkefni samtímans: fólksflutningum skal mætt með lokun landamæra; hamfarahlýnun með afneitun; og kröfunni um jöfnuð og velferð með yfirboðum og skyndilausnum.
Að auki er sótt að kvenfrelsi og mannréttindum hinsegin fólks, það er sótt að tjáningarfrelsinu og lýðræðinu og hinu opna samfélagi. Ísland er ekki undanskilið. Gildi jafnaðarhugsjónarinnar um jafnrétti, frelsi, fjölbreytileika og samstöðu veita skýra leiðsögn í flóknum verkefnum samtímans. Nafn Samfylkingarinnar vísar til samfylkingar vinstri flokkanna gegn fasisma og nasisma á fjórða áratug síðustu aldar. Sú sókn er í fullu gildi og sækir kraft sinn til allra þeirra sem hafna hinum ólýðræðislegu öflum og bakslaginu gegn mannréttindabaráttu um allan heim.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. sept. 2022.