Fas­ismi á fínum fötum

Við lifum at­hyglis­verða tíma. Í hverjum kosningunum á fætur öðrum fá stjórn­mála­öfl sem eiga rætur að rekja til gamalla fas­ista­flokka eða jafn­vel hreyfinga ný­nasista stuðning stórs hluta kjós­enda.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Jimmi­e Åkes­son og Sví­þjóðardemó­kratarnir fengu fimmtung greiddra at­kvæða í kosningum til sænska þingsins fyrr í þessum mánuði. Allt bendir til þess að þeir séu orðnir stu­eren í sænskri pólitík, það er að segja í húsum hæfir.

Um helgina kusu Ítalir for­ystu­konu Ítalska bræðra­lagsins, Giorgiu Meloni, að öllum líkindum í em­bætti for­sætis­ráð­herra í banda­lagi við Matteo Salvini frá La Lega og Sil­vio gamla Berlu­sconi for­ystu­mann Forza Itali­a. Þau kalla sig mið­hægri-banda­lag en fátt bendir til annars en þau standi fyrir stæka hægri stefnu með öfga­fullu í­vafi. Áður höfum við fylgst með fram­gangi Marine Le Pen í Frakk­landi og stjórnar­háttum Viktors Or­bán í Ung­verja­landi, að ó­gleymdri al­ræðis­stjórn Vla­dí­mírs Pútín í Rúss­landi.

Hina nýju strauma í evrópskum stjórn­málum má kalla fas­isma á fínum fötum. Yfir­bragðið er brosandi fal­legt en skila­boðin þegar grannt er skoðað ó­geð­felld og sundrandi. Hinar ný­fasísku hreyfingarnar nýta lýð­hyggju (popúl­isma) til að höfða til kjós­enda með ein­földum skila­boðum. En fas­istar eiga það sam­eigin­legt að ráða ekki við stærstu verk­efni sam­tímans: fólks­flutningum skal mætt með lokun landa­mæra; ham­fara­hlýnun með af­neitun; og kröfunni um jöfnuð og vel­ferð með yfir­boðum og skyndi­lausnum.

Að auki er sótt að kven­frelsi og mann­réttindum hin­segin fólks, það er sótt að tjáningar­frelsinu og lýð­ræðinu og hinu opna sam­fé­lagi. Ís­land er ekki undan­skilið. Gildi jafnaðar­hug­sjónarinnar um jafn­rétti, frelsi, fjöl­breyti­leika og sam­stöðu veita skýra leið­sögn í flóknum verk­efnum sam­tímans. Nafn Sam­fylkingarinnar vísar til sam­fylkingar vinstri flokkanna gegn fas­isma og nas­isma á fjórða ára­tug síðustu aldar. Sú sókn er í fullu gildi og sækir kraft sinn til allra þeirra sem hafna hinum ó­lýð­ræðis­legu öflum og bak­slaginu gegn mann­réttinda­bar­áttu um allan heim.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. sept. 2022.