Samfélag jöfnuðar?

Helga Vala fréttabanner

Í dag fáum við að líta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Helga Vala Helgadóttir Þingflokksformaður

Þar sjáum við svart á hvítu hvaða samfélag þeir þrír flokkar sem mynda ríkisstjórn Íslands, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vilja byggja. Um helgina fengum við nasasjón af raunverulegri sýn ríkisstjórnarinnar því það er einmitt í fjárlagafrumvarpi sem pólitísk stefna flokkanna þriggja raungerist. Ráðherrar hafa komið fram undanfarna daga og sagst ætla að fresta verkefnum, hafa skatta óbreytta en hækka krónutölu gjalda á almenning. Heildarplaggið er enn á huldu en þetta segir okkur samt ákveðna sögu. Ríkisstjórnin ætlar sér ekki að sækja tekjur í ríkissjóð til hinna efnameiri heldur til almennings óháð efnahag. Skattar verða óbreyttir en krónutöluhækkun er boðuð á gjöldin og þar með birtist sá vilji flokkanna þriggja að sá sem er með 400 þúsund krónur á mánuði borgi jafn mikið til samneyslunnar og sá sem hefur 4 milljónir. Flokkarnir ætla, ef marka má orð þeirra, ekkert að gera til að auka hér jöfnuð. Ekkert hefur verið sagt um að hækka skatt á fjármagnstekjur eða stóreignir, arð banka eða stórútgerða. Nei, það skal sækja fjármagnið til almennings óháð efnahag og eignastöðu. Þetta er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Þau segja að fresta eigi framkvæmdum og auka hér aðhald. Nú verður fróðlegt að sjá hvort í fjárlagafrumvarpinu birtist stefna ríkisstjórnarinnar að auka aðhaldskröfur á heilbrigðisstofnanir sem hafa verið vanfjármagnaðar undanfarna áratugi. Það ríkir þjóðarsátt á Íslandi um sterkt opinbert heilbrigðiskerfi og að auknu fjármagni verði veitt til þess. Undir það ákall skrifuðu hátt í 100 þúsund íbúar fyrir kosningarnar 2016 en ríkisstjórnir frá þeim tíma hafa virt þetta ákall að vettugi. Það þýðir ekkert að koma fram og vísa í aukin útgjöld vegna heimsfaraldurs þegar rætt er um vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins því það blasir við að almenn heilbrigðisþjónusta er og hefur verið vanfjármögnuð um langt skeið. Flótti starfsfólks og langir biðlistar einkenna stjórn þessarar ríkisstjórnar á heilbrigðiskerfinu og ef aukið aðhald á heilbrigðisstofnanir verður svar ríkisstjórnar í fjárlögum næsta árs er ljóst að hennar verður minnst í framtíðinni fyrir aukinn ójöfnuð og vanrækslu við eina stærstu grunneiningu íslensks samfélags. Þau sem eiga fjármagn geta þannig sótt sér heilbrigðisþjónustu utan landsteinanna, aðrir mega bíða. Svar ríkisstjórnar við hamfarahlýnun er svo að hækka álögur á rafmagnsbíla.

Það er ekki nóg að segjast á tillidögum ætla að auka hér jöfnuð og hækka veiðigjöld eða bankaskatt þegar ekkert slíkt er svo sett fram í fjárlögum. Með slíkum orðum sínum er forystufólk ríkisstjórnarinnar að beita þjóðina blekkingum um raunverulega stefnu sína og sinna flokka.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. sept. 2022.