Hilda Jana nýr formaður stjórnar sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar

Aðalfundur sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar var haldinn á föstudag fyrir landsfund flokksins og var þar kjörin ný stjórn.

Hilda Jana Gísladóttir, var kjörin formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, ritari og Guðmundur Ari Sigurjónsson gjaldkeri. Varamenn í stjórn voru kjörnar þær Sabine Leskopf og Guðný Maja Riba.

Hlutverk sveitarstjórnarráðs er að styðja sveitarstjórnarfulltrúa Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands, í þeirra störfum og fjalla með reglubundnum hætti um þróun sveitarstjórnarmála á hinum ýmsum sviðum þeirra og marka meginstefnuna í þeim málum á grundvelli stefnuskrár flokksins.

Hilda Jana Gísladóttir nýr formaður sveitarstjórnarráðs segist finna fyrir miklum krafti sveitarstjórnarfólks Samfylkingarinnar. „Við eigum sannarlega kraftmikinn og öflugan hóp sveitarstjórnarfólks, sem vill þétta raðirnar, efla samstarf og samvinnu kjörinna fulltrúa flokksins sem og að auka umræðu um málefni sveitarfélaga. Ég hlakka til að þess að bretta upp ermar og skipuleggja starf sveitarstjórnarráðs þannig að því ákalli verði svarað.“