Nokkur orð um Samfylkinguna

Þórunn,  kraginn, banner,
Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Gamall félagi okkar í Samfylkingunni, Sighvatur Björgvinsson, ritaði nýlega grein í þetta blað þar sem hann fór rangt með staðreyndir, meðal annars fylgistölur. Um leið og mig langar ekkert minna en að standa í stælum á opinberum vettvangi við félaga mína þá get ég heldur ekki látið það líðast að menn endurriti sögu Samfylkingarinnar eftir eigin höfði.

Margt má segja um varnarmúrinn sem gamlir kratar hafa slegið upp í kringum fyrrverandi formann Alþýðuflokksins og kannski ber okkur að virða þeim til vorkunnar að þeir eigi ekki samleið með samtímanum. En þá kröfu verður að gera að menn geri tilraun til þess að skilja #metoo-byltinguna og áhrif hennar. Konur á öllum aldri sjá nú, margar í fyrsta sinn, tækifæri til að kasta af sér þöggunarhlekkjum samfélags sem til skamms tíma stóð saman um að trúa þeim ekki og gera lítið úr ofbeldinu sem þær hafa mátt þola. Karlar geta ekki lengur skákað í skjóli valdakerfis sem var hannað til að verja þá. Sá tími er sem betur fer að líða undir lok.

En aftur að Samfylkingunni. Á fyrsta áratug þessarar aldar var þrisvar kosið til Alþingis. Árið 2003 fékk Samfylkingin undirformennsku Össurar Skarphéðinssonar 31% fylgi en þá var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í fyrsta sinn í framboði fyrir flokkinn og var kandídat hennar í forsætisráðherraembættið. Árið 2007 var hún orðin formaður flokksins og þá fékk Samfylkingin 26,8% fylgi. Samfylkingin beið ekki afhroð undir forystu Ingibjargar Sólrúnar. Árið 2009 fékk Samfylkingin 29,8% en þá var Jóhanna Sigurðardóttir orðin formaður flokksins.

Það er ömurlegt að fylgjast með svokölluðum eðalkrötum leggja lykkju á leið sína til að koma höggi á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Þeir bera einir ábyrgð á því. Ég vona bara að tilvonandi formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, fái að njóta sannmælis og vil nota þetta tækifæri til að óska henni fararheilla.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. okt. 2022.