„Ég bauð mig fram til formanns til að leiða breytingar“
Kristrún Frostadóttir hélt sína fyrstu stefnuræðu á landsfundi um helgina. Í ræðu sinni sagði Kristrún ætla að fara aftur í kjarnann og leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarmanna.
Landsfundur — kæra jafnaðarfólk.
Allt hefur sinn tíma. Öllu er afmörkuð stund. Og nú gengur í hönd tími breytinga í Samfylkingunni.
Því að Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands er nú flokkur með nýja forystu. Og breytingarnar, þær byrja strax í dag. Þær hefjast hér og nú. Já, látum þennan landsfund marka tímamót. Sjáum til þess saman á næstu misserum og árum að við getum litið um öxl og séð að þessi stund hafi markað raunveruleg tímamót — ekki bara í sögu Samfylkingarinnar heldur í sögu þjóðarinnar sem við vinnum fyrir. Það er undir okkur komið. Og trúið mér — við getum það. Verkefni okkar er að endurreisa velferðarkerfið eftir áratug hnignunar, þetta er grundvallarmál, sem vinnst ekki með dægurþrasi í stjórnmálum. Fólk þyrstir í forystu í stjórnmálum sem treystir sér í þetta verkefni.
Þessu kalli ber okkur að svara. Fólkið í landinu hefur beðið, það bíður enn og Samfylkingin verður að mæta til leiks, tilbúin í þetta mikilvæga verkefni í næstu kosningum. Ég vil nota tækifærið hér í dag, sem nýkjörinn formaður í Samfylkingunni, til að segja frá minni sýn fyrir flokkinn okkar og fyrir landið okkar; hverju við ætlum að breyta og hvers vegna — hvernig við ætlum að vinna og hvernig við munum stjórna.
En fyrst vil ég — fyrir hönd flokksmanna — koma á framfæri þakklæti okkar til fráfarandi forystu flokksins. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við ykkur. Þið komuð okkur aftur á beinu brautina eftir hremmingar árin á undan. Og við sem myndum nú nýja forystu sækjum fram á grunni sem þið hafið styrkt til mikilla muna. Heiða Björg Hilmisdóttir: Þú vannst sögulegan sigur í kjöri til formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sú fyrsta sem er ekki úr Sjálfstæðisflokki; stórkostlegur árangur og sýnir líka að pólitíska landslagið er að breytast.
Takk fyrir þín störf sem varaformaður, Heiða, og vegni þér sem allra best á nýjum vettvangi — við erum sannfærð um að þú munt efla sambandið og flokkinn okkar í leiðinni. Til hamingju með árangurinn!
Og elsku Logi Einarsson: þú sem tókst við flokknum á erfiðasta mögulega tíma, árið 2016, fékkst hann í fangið — útfararstjóri sagði fólk. En það afsannaði Logi: Reif flokkinn í gang, ríflega tvöfaldaði þingstyrkinn strax árið 2017. Og árið eftir unnum við síðan glæsta sigra í sveitarstjórnum um land allt; mynduðum meirihluta í sveitarfélögum fleiri Íslendinga en nokkur annar stjórnmálaflokkur. Logi — þú varst réttur maður á réttum tíma. Þú breyttir útförinni í upprisu og endurnýjun. En ég vil líka þakka þér persónulega, Logi, fyrir að hafa tekið svona ótrúlega vel á móti mér. Því mun ég aldrei gleyma og ég hlakka til að vinna áfram með þér á næstu misserum.
Nú er staðan þessi: Samfylkingin stendur sterkum fótum á sveitarstjórnarstiginu. Við eigum sterkar rætur um land allt. Flokkurinn okkar og fólkið okkur nýtur enn trausts til að stjórna og leiða ýmsa af þeim málaflokkum sem standa fólki hvað næst í daglegu lífi. Það er gott. En staðan í landsmálunum — hún er ekki ásættanleg. Síðustu kosningar til Alþingis voru vonbrigði. Og það er þar sem stóru línurnar eru lagðar. Fráfarandi formaður axlaði sína ábyrgð. En við vitum öll í hjarta okkar að það er ekki nóg að skipta bara um forystusveit. Enda kallaði Logi sjálfur eftir breyttu leikskipulagi og öðruvísi forystu.
Ég ákvað að svara því kalli - eftir að hafa ferðast vítt og breitt um landið og haldið fjölda opinna funda með fólki, í heimabyggð þess. Ég hef ekki staðið uppi á stalli, heldur þvert á móti leitast við að berskjalda mig og standa með báða fætur á gólfinu — til að hlusta á fólk — í augnhæð.
Ekkert hefur gefið mér eins mikla pólitíska innsýn og innblástur. Þessi samtöl hafa mótað mig og hér stend ég í dag — með skýrar áherslur og hugmyndir í farteskinu — sem ég hef kynnt nokkuð ítarlega á undanförnum vikum. Þið vitið hvar þið hafið mig — það hefur allt verið uppi á borðum. Og umboðið er skýrt.
Ég bauð mig fram til formanns til að leiða breytingar: Fyrst í flokknum okkar og svo í ríkisstjórn. Eftir 50 opna fundi, fjölda viðtala og óteljandi samtöl við fólk í flokknum og utan flokksins þá get ég sagt með fullri vissu að Samfylkingin er tilbúin í breytingar — og fólkið í landinu vill með í nýja vegferð þar sem við fetum okkur skipulega áfram, samtal fyrir samtal, og vinnum til baka traust. Við erum lögð af stað í þennan leiðangur — og já, við eigum mikið verk fyrir höndum — en ég vil koma þökkum mínum skýrt til skila: Takk fyrir samtölin. Takk fyrir traustið kæru félagar í Samfylkingunni.
Takk fyrir að veita mér þetta skýra umboð. Nú göngum við saman til verka. Kæru félagar. Kannski væri auðveldast að breyta engu — og þægilegast að kenna öðrum um. En við ætlum ekki að fara þá leið. Við fórum ekki í pólitík til að vera í stjórnarandstöðu — til að kvarta og kveina undan endalausum ríkisstjórnum undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Með misjafnlega veikburða fylgiflokkum. Við erum í pólitík til að ná árangri — til að hafa áhrif — bæta líf fólks og byggja upp fallegra og betra samfélag. Við verðum að komast til valda til að geta það. Og til þess þurfum við að vinna til baka traust fólksins í landinu. Svo tölum bara hreina íslensku hérna. Við skulum vera algjörlega hreinskilin: Þegar þú tapar kosningum í lýðræðisríki — þá þarf að líta í eigin barm. Þú stendur ekki bara uppi á stalli og horfir niður á kjósendur og spyrð: Hvað voruð þið eiginlega að hugsa? Þú horfir inn á við og spyrð: Hvað gerðum við vitlaust? Samfylkingin hefur núna tapað fernum kosningum til Alþingis í röð. Við höfum eftirlátið Sjálfstæðisflokknum áratug til að stjórna þessu landi, óslitinn. Með alvarlegum afleiðingum sem eru að koma betur og betur í ljósi. Það væru svik við okkur sjálf og svik við jafnaðarstefnuna og fólkið í landinu að halda bara áfram á sömu braut — eins og ekkert sé. Þess vegna segi ég: Nú er kominn tími til að taka það alvarlega að vinna; vinna traust. Sem þýðir að við verðum að ráðast í breytingar — okkur ber beinlínis skylda til þess. Og það er það sem við erum að gera núna. Þetta snýst ekki um að ráðast í allsherjaruppgjör; leita að sökudólgum.
Heldur að sýna þjóðinni að við ætlum áfram — við ætlum að horfa fram á veginn — fyrir framtíð þjóðarinnar. Gildin okkar standast tímans tönn, þeim höldum við hátt á lofti. En við verðum að eiga erindi í nútímanum og endurnýja traustið á þeim grunni. Fólk þarf að heyra hvert við ætlum með Ísland. En hvað mun breytast í flokknum okkar? Samfylkingin er flokkur undir nýrri forystu. Við ætlum að fara aftur í kjarnann — með því að leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarmanna. Það snýst um forgangsröðun og traust. Þegar fólk spyr sig: hvaða flokkur það er sem passar upp á kjörin og velferðina og efnahag venjulegs fólks á Íslandi — þá er það Samfylkingin sem á að koma fyrst upp í hugann. Velferðarmálin kalla á alla okkar athygli – mál sem snerta daglegt líf fólks, hvar það býr, hvernig það kemst á milli staða. En trúverðugleiki okkar þar byggir líka á trúverðugri efnahagsstefnu.
Valkosti við efnahagspólitík núverandi ríkisstjórnar sem yfirgnæfir allar þeirra aðgerðir — eða öllu heldur aðgerðaleysi. Okkar efnahagsstefna tekur mið af hagsmunum heildarinnar — heildarmynd, skilningi á því hvernig velferðarkerfið verður best rekið og fjármagnað. Að skammtímalausnir skila sér oft í meiri kostnaði síðar meir — að skuldir finnast víðar en í bókhaldi ríkissjóðs. Stórtækar framfarir á Íslandi velta á því að hér komist til valda stjórnmálaflokkur sem sér þessa stóru mynd — getur veitt landinu forystu með fast land undir fótum og samfellu í hugsun — ekki bara tilviljanakenndum fjárútlátum og stefnulausu aðhaldi sem engum árangri skilar. Í öðru lagi: Við ætlum að koma á virkari tengingu við fólkið í landinu venjulegt fólk, hinn almenna launamann. Og það verður ekki gert með öðrum hætti en maður á mann. Niður af sápukassanum beint í augnhæð. Sú nálgun mun einkenna flokkinn undir minni forystu. Í þriðja lagi: Við ætlum að breyta menningunni í flokknum okkar. Sameinast um það sem við erum öll sammála um — grunngildin, það sem við trúum á, kjarna jafnaðarstefnunnar. En þegar ágreiningur kemur upp þá leysum við úr honum á málefnalegan og lýðræðislegan hátt, eins og fullorðið fólk.
Eins og okkur ber skylda til að gera þegar við tökum við stjórn landsins. Við þurfum að hafa stjórn á flokknum til að geta stýrt landinu. Samfylkingin jafnaðarflokkur Íslands var ekki stofnaður til að vera í stjórnarandstöðu heldur til að vera forystuafl. Sá andi þarf komast aftur á.
Nýjar áherslur — nýtt verklag — ný vinnumenning. Þetta eru þær breytingar á flokknum sem ég er að tala um. Og síðast en ekki síst þá ætlum við að sýna hæfni og styrk í stjórnarandstöðu. Það gerum við með því að vera ábyrg. Ekki með því að skora ódýr stig. Ekki með því að eltast við like eða lúta þeim sem hafa hæst á samfélagsmiðlum —þeim sem eru reiðastir í þjóðmálaumræðunni og nota stærstu orðin. Við verðum að brjótast út úr bergmálshellinum. Því að við ætlum að taka verkefnið alvarlega. Það verður ekki auðvelt — það útheimtir aga og úthald. Kannanir munu sveiflast upp og niður – en við verðum líka að muna að eina könnunin sem raunverulega skiptir máli er sú sem birtist á kjördag. Kannanir á miðju kjörtímabili geta endurspeglað óánægju með ríkisstjórnina en við viljum ná fylgi út á ánægju með Samfylkinguna og okkar stefnu. Ég vil að flokkurinn fái ánægjufylgi, traustsfylgi — því það er fylgið sem skilar sér alla leið á kjördag. Ekki bara tímabundið mótstöðufylgi sem tekur ekki tillit til þess hvort fólk treystir okkur til að stjórna eða ekki. Þetta er viðhorf sem þarf að breytast. Og sú leið sem Samfylkingin ætlar að fara. Verðum að horfa fram á veginn Þetta leiðir mig að mikilvægu atriði sem ég vil ávarpa sérstaklega:
Samfylkingin má aldrei festast í stað. Þó við séum stolt af okkar sögu, árangri og baráttu forvera okkar í stjórnmálum þá megum við ekki festast í fortíðinni. Okkar pólitík getur ekki snúist fyrst og fremst um að klára þau kosningamál sem okkur tókst ekki að skila af okkur síðast þegar við vorum í ríkisstjórn — sem voru sett fram á öðrum tíma og við allt aðrar aðstæður. Við getum ekki dvalið í fortíðinni. Þvert á móti eigum við að spyrja: Hvað vill fólk í dag? Núna í dag — árið 2022. Ég hef verið algjörlega skýr. Og ég hef beinlínis sótt umboð mitt til forystu í Samfylkingunni á þeim grundvelli að ég muni fara aftur í kjarnann og leiða ákveðnar breytingar — meðal annars þegar kemur að stórum stefnumálum okkar í Samfylkingunni. Sem vekja upp sterkar tilfinningar og eru mörgum okkar hjartans mál. Ég hef til dæmis svarað spurningum um Evrópusambandið og stjórnarskrána á fjölda opinna funda, í viðtölum og í persónulegum samskiptum við alla sem eftir því hafa leitað. Og það hefur verið alveg skýrt að ég vil nálgast þessi grundvallarmál í íslenskum stjórnmálum á nýjan hátt. Nú þegar ég hef verið kjörin sem formaður í Samfylkingunni vil ég hnykkja á þessu, því það skiptir máli fyrir framhaldið: Ég er sjálf mikill Evrópusinni. Ég er eindregið fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrir því ýmsar veigamiklar ástæður og alls ekki allar af efnahagslegum toga. En undir minni forystu mun Samfylkingin ekki reyna að selja fólki Evrópusambandið sem töfralausn. Enda er það ekki töfralausn.
Það hefur bæði kosti og galla. Og það er mikilvægt að Samfylkingin sýni ólíkum sjónarmiðum og áhyggjum fólks virðingu. Það er vel hægt að vera jafnaðarmaður og hluti af Samfylkingunni án þess að vera sannfærður um ágæti aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
Og svo er það nú bara þannig að það er löngu kominn tími á að uppfæra og endurnýja umræðuna um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Af alvöru. Nú eru liðin 20 ár — tveir áratugir — frá því að Samfylkingin stóð fyrir víðtækri kynningu á Evrópusambandinu og samráði við fólk um land allt. En margt hefur breyst síðan þá.
Bæði í Evrópu og hér heima. Við getum ekki bara haldið áfram að þylja upp öll gömlu rökin. Og þess vegna segi ég það hér: Samfylkingin mun ekki setja fulla aðild að Evrópusambandinu fram sem forgangsmál nema að undangengnu víðtæku samtali og uppfærðri rannsókn á kostum og göllum aðildar. Og að undangenginni forgangsröðun á málum sem sameinar fólk með jafnaðartaug í landinu óháð skoðun þess á Evrópusambandinu. Því það verður að vera stór flokkur með breitt umboð sem leiðir svona mikilvæga umræðu — þetta er ekki smáflokkamál. Þetta segi ég sem Evrópusinni. Ég er einfaldlega sannfærð um að þetta sé árangursríkasta leiðin til að koma málinu áfram, að sameinast um að fara aftur í kjarna jafnaðarmennskunnar og styrkja okkur þar, breikka umboðið og vera svo leiðandi í umræðunni um alþjóðamál og Evrópusambandið — þegar tækifærið gefst. Það sama á við um stjórnarskrána. Nú hefur málið verið algjörlega stopp í tíu ár. Hvernig getum við komist eitthvað áfram? Við étum ekki fílinn í einum bita— það ætti að vera orðið ljóst að það er ekki raunhæft. Krafan um allt eða ekki neitt í stjórnarskrármálum hefur ekki skilað árangri og við verðum að breyta um nálgun, viðurkenna vafningalaust að breytingar á stjórnarskrá munu kalla á málamiðlanir og breitt samstarf stjórnmálaflokka á Alþingi.
Samtalið er ekki alltaf auðvelt og leiðirnar ekki greiðfærar. Verkefnið er erfitt. Eins og ég sagði, þá er verkefni okkar að endurreisa velferðarkerfi okkar, skref fyrir skref. Fólk þyrstir í forystu í stjórnmálum sem treystir sér af alvöru í þetta verkefni. Okkur ber skylda til að svara kallinu. Fólkið er að bíða. Þess vegna verðum við að eiga virkt samtal við þjóðina. Ég vil halda áfram á þeirri braut og víkka út samtalið, opna flokkinn okkar — við skulum tala til hins breiða massa og höfða til ósköp venjulegs fólks, ekki bara stakra hópa. Um málefni sem snerta þorra landsmanna.
Um nýja nálgun í stjórnmálum sem passar við jafnaðarmennskutaugina sem við finnum svo víða — þó hún hafi ekki skilað sér nægilega til Samfylkingarinnar í undanförnum Alþingiskosningum. Hér á fólk með slíka taug heima, hér í Samfylkingunni — hvort sem það er skráð í flokkinn eða fylgist með. Nú er fjöldi fólks um land allt sem veitir nýjum straumum í flokknum athygli, við þurfum að opna okkur fyrir þeim, taka þessu fólki opnum örmum. Bjóða það velkomið. Við þurfum á því að halda, fólkið bíður eftir okkur. Ég vil lýsa því yfir hér að þetta verður meginverkefni Samfylkingarinnar næsta árið: Að opna flokkinn — að halda áfram að eiga umfangsmikið samtal við fólk um land allt. Við munum boða til efnislegrar umræðu um þá málaflokka sem við setjum í forgang fyrir næstu ár, halda opna fundi og málþing — kalla til sérfræðinga, fólkið á gólfinu, fólk sem er hokið af reynslu og ungt fólk sem vill móta eigin framtíð hér á Íslandi.
Þetta er ákall til ykkar, kæru félagar, um að koma öll með í þetta verkefni. Ákall til allra sem landið byggja um að virkja samstöðuna. Öll getum við lagt okkar af mörkum. Virkjum jafnaðartaugina, gerum þetta skipulega, tökum samtalið og öflum upplýsinga og vinnum úr þeim með innri áttavitann rétt stilltan. En er breytinga þörf í dag? Hvers vegna verður Samfylkingin að sigra í næstu kosningum? Það er vegna þess að verkefnin sem við stöndum frammi fyrir krefjast þess.
Þau kalla á kaldan haus og heitt hjarta; kraftmikla forystu fyrir Ísland undir merkjum klassískrar jafnaðarstefnu. Við höfum eftirlátið íhaldsöflunum óslitinn áratug við völd. Og það má ekki líða annar áratugur undir sama stjórnarfari. Það er einfaldlega alltof mikið í húfi. Fyrir vinnandi fólk. Fyrir velferðarkerfið okkar. Fyrir framtíðina í þessu landi. Kerfin okkar eru föst í hjólförum sem við þurfum að sameinast um að komast upp úr.
Raunveruleg forysta á tímum sem þessum felur í sér ákall til fólks um að við stöndum saman að verkefninu að rétta við velferðarkerfið okkar. Sú hugmyndafræði sem yfirgnæfir þetta ríkisstjórnarsamstarf er frekar einföld og ákvörðuð í fjármálaráðuneytinu, án mótstöðu. Lækka á bókhaldsskuldir ríkissjóðs til skamms tíma og lækka á skatta til langs tíma. Eitthvað verður eftir að gefa – og það hefur birst okkur víða í velferðinni. Hátt í
50 milljarðar króna árlega hafa verið teknir út úr ríkissjóði á kostnað velferðarkerfisins með almennum skattabreytingum – og þau skilaboð eru send út til fólks að það eigi bara að sjá um sig sjálft, hver og einn í sínu horni vinnur með sínar auknu ráðstöfunartekjur sem af þessum skattalækkunum hljótast. Og alltaf gleymist það, þegar grunnkerfin okkar eru fjársvelt með þessum hætti, að kostnaðurinn færist bara til.
Hann kemur þá fram annars staðar, ogsmám saman verður til tvöfalt kerfi. Við sjáum þetta meðal annars í heilbrigðisþjónustu. Og ég heyri það í samtölum við fólkið í landinu að þetta er ekki þeirra vilji. Fólk vill ekki búa í tvöföldu samfélagi, þeirra sem geta keypt sig fram fyrir röðina og hinna sem sitja heima og bíða. En hér er fólki beinlínis stillt upp við vegg, þvingað í þessi hólf vegna núverandi stjórnarfars. Við þetta bætist innistæðulaus málflutningur um að verið sé að vinna í málum, sem enginn raunverulegur vilji er til að fjármagna vegna kreddu í efnahagsmálunum. Ábyrgð þeirra sem svona tala án aðgerða er mikil. Því svona pólitík elur á vantrú fólks á getu samfélagsins til að hlúa að því sem skiptir máli: aðgengi að grunnþjónustu.
Fólk glatar trúnni og hólfar sig af í stað þess að horfa í kringum sig – og það myndast brestir í samfélaginu. Inn í þetta ástand verðum við að grípa – það er ákall um það. Ég veit það og ég finn það. Samtakamátturinn, samábyrgðin og samstaðan er forsenda alvöru breytinga: stærstu áskoranir okkar tíma kalla á það; í heilbrigðis- og öldrunarmálum, innviðauppbyggingu, fjármögnun almannatryggingakerfisins og skipulegri nálgun í loftslagsmálum með réttlát umskipti að leiðarljósi. Okkur ber skylda, okkur jafnaðarfólki vítt og breitt um landið, okkur ber skylda til að virkja samtakamáttinn þvert á samfélagið.
Við eigum að vera stolt af kraftmiklu fólki sem starfar í velferðarkerfinu jafnt sem hjá fyrirtækjunum. Atorkusömu fólki út um allt, fólk sem býr á heimilum þar sem starfað er bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, fólk fylgist með okkur alls staðar að – jafnaðartaugin finnst víða. Hún spyr ekki hvaðan þú kemur eða hvert þú ert að fara, hvar þú vinnur eða hverja þú þekkir. Hún byggir á vilja til þess að búa í réttlátu samfélagi. Á skilningi fólks um að enginn fer neitt einn. Að efnisleg og félagsleg velgengni er ekki aðeins afrakstur eigin framtaks, heldur umhverfis sem gerði fólki kleift að skara fram úr, vegna meðfæddra eiginleika og oft heppni.
Að slík velgengni getur verið misjöfn en henni fylgir líka ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þessi hugmyndafræði endurspeglast ekki í stjórnfari dagsins í dag, því miður. Við þurfum að leiða samtalið við fólkið sem hér býr um mikilvægi þess að finna til ábyrgðar gagnvart samfélaginu okkar. Endurheimta alvöru merkingu orðsins samstöðu sem ríkisstjórnin hefur þynnt út og endurskilgreint sem samstöðu um ekki neitt nema þaulsetu í þægilegum ráðherrastólum; samstöðu á milli flokkanna en á móti fólkinu. Vonleysið sigraði í síðustu kosningum til Alþingis. Dæs Framsóknarflokksins og uppgjöf VG. Er ekki bara best að yppta öxlum, geispa og gefast upp? Þetta var boðskapur Framsóknar. Skiptir máli hvernig þú stjórnar? Nei, það skiptir bara máli hver situr í stólnum og hittir fræga fólkið í útlöndum.
Þetta er stefna VG. Og auðvitað er Sjálfstæðisflokkurinn samur við sig. Hann ræður ferðinni í þessari ríkisstjórn með því að reka harða og úrelta hægristefnu úr fjármálaráðuneytinu. Heldur kerfunum okkar í hjólförum með skammsýni og skort á yfirsýn um hvað þetta verkefni snýst um: við erum að reka hér samfélag. Þau er þreytt. Vonleysið hefur unnið á þeirra vakt. En fólkið í landinu veit að þetta þarf ekki að vera svona.
Við höfum hlustað og höldum því áfram. Um land allt er fólk farið að sjá glitta í von, glitta í stjórnarfar sem gæti endurspeglað hugmyndir þess um gerlegar framfarir hér á landi. Við skulum taka það upp á okkar arma kæra Samfylking að leiða þá umræðu. Vera boðberi nýrra tíma. Virkja vonina — með hreinskilnu samtali í augnhæð.
En kæru félagar — að beisla slíka vonarglætu, efla og nýta kraft samstöðunnar, er vandmeðfarið. Og það er eitt að hafa bullandi trú á hlutunum, annað að vaða bara af stað og eitthvað allt annað að lofa öllum öllu. Að geta sagt hlutina eins og þeir eru, valið og hafnað — þar reynir raunverulega á forystuna.
Ég er nú kannski ekki þekkt fyrir að fara of hægt í sakirnar eða stíga of varlega til jarðar. Enda vil ég koma inn af krafti og gefa allt sem ég á. En — ég vil að það sé alveg skýrt — að ég er ekki og hef aldrei verið byltingarsinni. Og ég trúi ekki á töfralausnir. Við sósíaldemókratar — eða lýðræðisjafnaðarmenn eins og það heitir á góðri íslensku — við erum ekki byltingarsinnar. Og þetta þarf fólk að vita. Það er rótgróið í okkar sósíaldemókratíska erfðamengi að trúa á jafnvægi og framfarir — að vera praktísk og leita raunhæfra lausna og breiðrar samstöðu.
Þessi nálgun er samofin sögu jafnaðarstefnunnar. Og skilar margfalt meiri árangri fyrir venjulegt fólk en að bíða eftir byltingunni, eins og dæmin sanna. Við étum ekki fílinn í einum bita. Það er ekki skynsamlegt. Og við megum ekki stjórna þannig. Eins og við séum svo logandi hrædd um að fá bara fjögur ár við völd að við þurfum að klára að leysa öll vandamál þjóðarinnar á einu kjörtímabili. Við höfum lært af reynslunni í þeim efnum. Við höfum skýra framtíðarsýn fyrir Ísland. Við munum keyra okkar pólitík áfram af harðfylgi og festu. En við gerum það skynsamlega — skref fyrir skref. Og við skiljum að stundum þarf að sæta færis.
Því að allt hefur sinn tíma. Og öllu er afmörkuð stund. Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands. Ég er ánægð með þetta nafn — sem við höfum sameinast um á þessum landsfundi. Þetta var tillaga sem kom í fyrstu frá ungu jafnaðarfólki, vel gert! *klapp*
Og ég er sömuleiðis ánægð með að tillaga stjórnar verkalýðsmálaráðs hafi verið samþykkt í breiðri sátt — um að Samfylkingin taki upp nýtt merki. Sem er rósin, alþjóðlegt tákn jafnaðarfólks. Skilaboðin eru skýr. Við ætlum að fara aftur í kjarnann — leggja ofuráherslur á kjarnamála jafnaðarstefnunnar. Landsfundur og kæru landsmenn: Ég heiti því — það er loforð mitt til ykkar — að Samfylkingin mun, undir nýrri forystu, hrista rækilega upp í þessu ástandi sem er komið upp í íslenskum stjórnmálum; þessu ástandi vonleysis og uppgjafar. Þetta gengur ekki lengur. Við ætlum að breyta pólitíkinni. Og stunda öðruvísi stjórnmál. Þetta er loforð. Við ætlum að stunda skýra og heiðarlega pólitík. Sem fólk getur treyst. Það sem við segjum verður það sem við meinum og það sem gerum — en ekki bara það sem hver og einn vill heyra hverju sinni. Það er svo sem sagt að vika sé langur tími í pólitík. Og maður veit aldrei, en það er hætta á að það séu heil þrjú ár í næstu kosningar. Við ætlum að nota þennan tíma vel. Við þurfum ekki að leggja fram ítarlega kosningastefnu núna strax eða nákvæmar útfærslur í öllum málum. En við skulum sýna að okkur er alvara. Sýna hvar við stöndum og hvernig við ætlum að breyta flokknum okkar og breyta pólitíkinni.
Ef við göngum einlæg í þetta saman og höfum úthald. Þá veit ég að þessi stund — þessi landsfundur — mun marka tímamót. Og að við munum uppskera ríkulega fyrir fólkið í landinu — jafnvel fyrr en ykkur gæti grunað. Því allt hefur sinn tíma. Og framundan er tími breytinga.