Nýtt nafn og nýtt merki- Kristrún fagnar ákvörðun landsfundar

Landsfundur Samfylkingarinnar samþykkti rétt í þessu að breyta nafni flokksins íSamfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands. Það er minniháttar breyting á nafni flokksins sem var áður Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Tillagan var borin upp af Arnóri Heiðari Benónýssyni forseta Ungs jafnaðarfólks (UJ) og forvera hans, Rögnu Sigurðardóttur.Aðrar tillögur að breytingu á nafni voru dregnar til baka þar sem sátt náðist um þessa tillögu.Þá samþykkti landsfundur Samfylkingarinnar 2022 að merki flokksins verði rós, sem er alþjóðlegt merki jafnaðarfólks. Það var gert að tillögu verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar.Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn formaður flokksins, fagnar þessum breytingum: „Ég er ánægð með þessar ákvarðanir landsfundar. Með því að taka rósina upp sem merki styrkjum við ímynd okkar sem jafnaðarflokks. Og rósin fer vel saman við áherslur mínar um að leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarstefnunnar.“