Frú Ragnheiður á Akureyri hlaut Hvatningarverðlaun Samfylkingarinnar

Á landsfundi Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands um helgina voru veitt hvatningarverðlaun flokksins og 200 þúsund króna styrkur. Að þessu sinni varð fyrir valinu verkefnið Frú Ragnheiður á Akureyri, sem er unnið á vegum Eyjafjarðardeildar Rauða krossins á Akureyri. Um er að ræða skaðaminnkandi verkefni, sem miðar að þjónustu við einstaklinga með erfiðan fíknivanda og veitir þeim heilbrigðisaðstoð, sálrænan stuðning og nálaskiptaþjónustu. Unnið er samkvæmt hugmyndum um skaðaminnkun, sem snýst m.a. um að draga úr jaðarsetningu þeirra sem glíma við erfiðan fíknisjúkdóm. Heimsóknum til Frú Ragnheiðar á Akureyri hefur fjölgað á milli ára, en á fyrstu átta mánuðum ársins 2022 voru 

Heimsóknirnar 262 talsins, en 195 allt árið á undan. Hvatningarverðlaunin eru ekki síst veitt vegna þess óeigingjarna starfs sem sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar á Akureyri hafa sinnt, fólk sem hefur gefið tíma sinn og þekkingu í þágu mannúðar.

 

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri afhenti fulltrúa frú Ragnheiðar, Sif Jóhannesar Ástudóttir viðurkenninguna, fyrir hönd flokksins. Sif sagði að þessu tilefni að þau væru ákaflega þakklát fyrir þannn stuðning og hlýhug sem Samfylkingin sýndi verkefninu og að fjármagnið kæmi sannarlega að góðum notum.