Kópavogsbær hefur ekki verið í framlínu við móttöku flóttafólks


Á fundi velferðarráðs Kópavogs þann 24. október lagði Erlendur Geirdal áheyrnarfulltrúi Samfylkingarinnar fram eftirfarandi bókun í kjölfar svara við fyrirspurn hans um móttöku flóttamanna í Kópavogi:
"Ég þakka verkefnastjóra velferðarsviðs svör við fyrirspurnum mínum.
Áhyggjuefni er að ekki hefur verið samið um móttöku flóttamanna frá Úkraínu til Kópavogs og að engin ákvörðun hefur verið tekin um samræmda móttöku flóttafólks.
Nú hefur félags- og vinnumálaráðuneytið lýst yfir því að það sé tilbúið að hjálpa sveitarfélögum við að finna húsnæði fyrir flóttafólk sé það vandamál.
Brýnt er að Kópavogsbær leggi sitt af mörkum við móttöku fólks á flótta og gangi frá samningum um það við stjórnvöld hið fyrsta."
Málið hófst með fyrirspurn í sjö liðum sem Erlendur lagði fram á fundi velferðarráðs þann 26. september s.l. :
1. Hve mörgum flóttamönnum hefur Kópavogsbær tekið á móti síðasta áratuginn og hve margir þeirra eru frá Úkraínu?
2. Hve margir þeirra hafa voru umsækjendur um alþjóðlega vernd?
3. Hvað eru margar fjölskyldur á flótta sem Kópavogur hefur tekið á móti og hve mörg börn alls, brotið niður eftir skólastigi?
4. Eru í Kópavogi börn á flótta sem ekki eru skráð í skóla? Ef svo er, hversu mörg eru börnin og af hverju eru þau ekki skráð í skóla?
5. Hvað gerir Kópavogsbær til að styðja við flóttamenn?
6. Hvar stendur samningagerð við ríkið um móttöku einstaklinga frá Úkraínu í skjól í Kópavogi og hvenær er áætlað að þeim samningum verði lokið?
7. Stendur til að Kópavogsbær geri þjónustusamning um samræmda móttöku annarra flóttamanna en frá Úkraínu. Ef ekki, af hverju?"
Svör verkefnastjóra velferðarráðs lágu fyrir fundinum 24. október og má lesa á síðu velferðarráðs á heimasíðu Kópavogsbæjar: https://thjonustugatt.kopavogur.is/meetingsearch/displaydocument.aspx?itemid=Rj6ZE4Fa_k6Q8iZ2wToTAA1&meetingid=p2RmOj82Ui7Q4SOXN6dTQ1&filename=Greinarger%C3%B0%20verkefnastj%C3%B3ra%20dags.%2018.10.2022&cc=Document
Fram kom að skráning flóttamanna hófst ekki fyrr en 2019 og einskorðast við skráningu í fjárhagskerfi bæjarins þar sem haldið er utan um þá sem fá afgreidda fjárhagsaðstoð en ekki er haldið utan um það hvort dvalarleyfi er veitt á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða af mannúðarástæðum, svo sem á við flóttafólk frá Úkraínu.
Samtals eru 92 í þjónustu sviðsins núna og þar af er tæpur helmingur frá Úkraínu eða 40 manns.
Sex börn á flótta eru í leikskólum bæjarins og 22 börn eru í grunnskólum.
Varðandi móttöku einstaklinga frá Úkraínu í skjól kom fram að frá vori hefðu fundir verið haldnir með félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, í kjölfar yfirlýstrar jákvæðrar afstöðu bæjarráðs Kópavogs um að ganga frá samningi um móttöku flóttafólks frá Úkraínu í skjól. Enginn samningur hefur þó verið undirritaður vegna þess að hentugt húsnæði hefur ekki staðið til boða og að það standi upp á ríkið að finna heppilegt húsnæði í því tilfelli.
Engin ákvörðun hefur verið tekin af stjórn Kópavogsbæjar um hvort bærinn muni gera samning við félags- og vinnumálaráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks.
Það er miður að Kópavogsbær sem næst-stærsta sveitarfélag landsins skuli ekki vera virkari þátttakandi í móttöku flóttafólks og hafi ekki einu sinni tekið ákvörðun um hvort það standi til að gera samning um samræmda móttöku flóttafólks.