Hálfur kjarapakki

Kristrún, þingflokkur, banner

Hálfur kjarapakki er betri en enginn kjarapakki.

Kristrún Frostadóttir Formaður Samfylkingarinnar

­Ríkis­stjórnin féllst á um helming þeirra tillagna sem við í Samfylkingunni kynntum með kjarapakka okkar í síðustu viku. Og samkvæmt forseta ASÍ réðu þessar aðgerðir miklu um það að kjarasamningar náðust í gær hjá iðnaðar- og verslunarfólki.

Úr kjarapakka Samfylkingarinnar

Þau þrjú atriði úr kjarapakka Samfylkingarinnar sem ríkisstjórnin féllst á að hrinda í framkvæmd eru þessi: Að hækka húsnæðisbætur til leigjenda um rúmlega 10% – að hækka vaxtabætur með 50% hækkun á eignaskerðingarmörkum til samræmis við hækkun fasteignaverðs – að hækka barnabætur til fjölskyldna um 5 milljarða á tveimur árum í stað raunlækkunar árið 2023.

Ég vil hrósa því sem vel er gert og fagna því auðvitað að ríkisstjórnin fallist á hluta þess sem við og verkalýðshreyfingin höfum kallað eftir að undanförnu. Nú er ljóst að baráttan síðustu misseri hefur skilað árangri fyrir fólkið í landinu.

Það sem vantar úr kjarapakkanum

En þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnir nú eru því miður algjört lágmarksviðbragð við ástandi sem hún hefur sjálf skapað og ber ábyrgð á. Munar þar mestu um ástandið á húsnæðismarkaði sem ráðherrar Framsóknarflokksins hafa borið ábyrgð á nær óslitið undanfarinn áratug.

Þau þrjú atriði úr kjarapakka Samfylkingarinnar sem vantar upp á í aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru eftirfarandi: Að taka upp tímabundna leigubremsu (að danskri eða skoskri fyrirmynd) – að tvöfalda ný stofnframlög til húsnæðisuppbyggingar í stað þess að helminga þau á árinu 2023 – að falla frá flatri hækkun á krónutölugjöldum almennings og taka þess í stað á þenslunni þar sem hún er í raun. Eftir metár í fjármagnstekjum, metarðsemi hjá stórútgerð og methagnað hjá bönkunum.

Stjórnin er í stöðugu viðbragði við neyð. En stefna okkar er skýr – Samfylkingin mun áfram leiða baráttu fyrir bættum kjörum almennings inni á Alþingi.

Greinin birtist á visi.is 13. desember 2022.