Ölmusa eða réttindi

Þórunn,  kraginn, banner,

Við af­greiðslu fjár­laga í desember fór fram hinn ár­legi jóla­gjafa­leikur ríkis­stjórnarinnar.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Sá leikur hefur það eitt að mark­miði að geta við lok hans barið sér á brjóst og sagt: „Sko, víst erum við góð við ör­yrkja!“ Leikurinn hefst á því að fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra leggur fram strípuð fjár­laga- og fjár­auka­laga­frum­vörp þegar kemur að réttindum ör­yrkja.

Við um­fjöllun í fjár­laga­nefnd og af­greiðslu málanna eru svo, á elleftu stundu, lagðar fram breytingar­til­lögur sem oft eru sam­hljóða því sem stjórnar­and­staðan hefur áður lagt fram og þær af­greiddar með lúðra­blæstri.

Eftir fimm ára setu ríkis­stjórnar Katrínar Jakobs­dóttur treysti hún sér loks til að hækka frí­tekju­mark at­vinnu­tekna ör­yrkja í 200 þúsund krónur á mánuði til sam­ræmis við frí­tekju­mark eftir­launa­fólks en frí­tekju­markið hefur staðið í stað frá því að Sam­fylkingin var síðast í stjórn. Ein­greiðsla, svo­kallaður jóla­bónus, upp á 60 þúsund krónur var einnig af­greidd en hana var ekki að finna í upp­haf­legum til­lögum fjár­mála­ráð­herrans.

Sam­fylkingin fagnar því að sjálf­sögðu inni­lega að tekju­lægstu í­búar landsins fái sinn jóla­bónus. Hann kemur sér örugg­lega vel. Fyrir hækkuðu frí­tekju­marki at­vinnu­tekna hefur Sam­fylkingin barist árum saman enda löngu tíma­bær breyting.

Af­leiðing kerfisins

Á Ís­landi býr fatlað fólk og þau sem misst hafa starfs­getuna eða glíma við lang­vinna sjúk­dóma við fá­tækt og jaðar­setningu. Það er mannanna verk. Af­leiðing kerfis sem heldur fólki undir oki fá­tæktar jafn­vel kyn­slóð fram af kyn­slóð.

Sumir virðast hafa sætt sig við að sú staða sé ó­um­breytan­leg en það gerir Sam­fylkingin ekki. Það er pólitískt for­gangs­mál okkar að breyta ör­orku­líf­eyris­kerfinu svo að það byggist á mann­réttindum fólks en ekki til­fallandi greiðslum sem eiga meira skylt við öl­musu en nokkuð annað.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. desember 2022.