Tími breytinga

Kristrún, þingflokkur, banner

Í haust hófst tími breytinga í Samfylkingunni. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með íslenskri pólitík.

Kristrún Frostadóttir Formaður Samfylkingarinnar

Þessar breytingar birtast meðal annars í breyttu vinnulagi og áherslum á Alþingi.

Við ætlum að fara aftur í kjarnann og leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarfólks. Þegar fólk spyr sig hvaða flokkur það er sem passar upp á kjörin og velferðina og efnahag venjulegs fólks – þá er það Samfylkingin sem á að koma fyrst upp í hugann.

Við viljum breyta íslensku samfélagi. Við viljum endurreisa velferðarkerfið um land allt eftir áratug hnignunar. En við vitum að til þess þurfum við að byrja á sjálfum okkur og byggja upp traust á milli fólksins í landinu og Samfylkingarinnar sem jafnaðarflokks.

Mikið verk er fyrir höndum – enda tekur tíma að ávinna sér traust. Það verður aðeins gert með virku samtali við fólkið í landinu, þar sem hver einasta manneskja með jafnaðartaug á Íslandi getur lagt sitt af mörkum.

Á 50 opnum samtalsfundum um land allt á árinu urðu áherslur nýrrar forystu til. Ég var kjörin formaður Samfylkingarinnar til að leiða breytingar og þessi nálgun mun einkenna flokkinn undir minni forystu.

Á flokksstjórnarfundi í mars mun Samfylkingin formlega blása til umfangsmikils málefnastarfs sem verður nú með breyttu sniði. Farið verður af fullum þunga í lykilmálaflokka og ráðist í víðtækt samtal við fólkið í landinu með opnum fundum í öllum landshlutum. Útkoman verður skýr verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn. Um leið mun Samfylkingin taka upp rós sem merki, alþjóðlegt tákn jafnaðarfólks.

Loks munum við áfram halda uppi einbeittri og markvissri stjórnarandstöðu á Alþingi. Við höfum séð á síðustu vikum að það ber árangur fyrir fólkið landinu – til dæmis þegar ríkisstjórnin lét undan og samþykkti hluta þess kjarapakka sem Samfylkingin kynnti fyrir jól, breytingar sem hafa áhrif á heimilisbókhaldið hjá þúsundum fjölskyldna strax á nýju ári.

Greinin birtisti í Fréttablaðinu 29. desember 2022.