Kjarapakki Samfylkingarinnar

Samfylkingin vill verja heimilsbókhaldið hjá fólkinu í landinu. Á sama tíma viljum við vinna gegn verðbólgu með aðhaldi þar sem þenslan er í raun og veru.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands, kynnti í dag kjarapakka flokksins. Með kjarapakkanum leggur Samfylkingin fram afmarkaðar breytingartillögur við fjárlög.

Markmiðið er að verja heimilisbókhaldið hjá fólki og á sama tíma vinna gegn verðbólgu með mótvægisaðgerðum.

„Samfylkingin vill verja heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu. Á sama tíma viljum við vinna gegn verðbólgu með aðhaldi þar sem þenslan er í raun og veru,“ segir Kristrún. „Þess vegna kynnir Samfylkingin nú kjarapakka með afmörkuðum breytingum á fjárlögum fyrir almenning.“

Tillögur kjarapakkans falla í tvo flokka sem bera yfirskriftina „Verjum heimilisbókhaldið“ og „Vinnum gegn verðbólgu“. Samfylkingin leggur til annars konar nálgun en núverandi ríkisstjórn hefur fylgt við stjórn efnahagsmála:

„Við viljum færa aðhald af almenningi og þangað sem þenslan er í raun,“ segir Kristrún. „Allt aðhald ríkisstjórnarinnar er lagt á almenning. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hækkar skatta með hækkun krónutölugjalda sem falla þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur. Samfylkingin vill sýna að það er hægt að fara aðra leið í þessum efnum.“

Meðal þess sem Samfylkingin leggur til er að falla frá gjaldahækkunum ríkisstjórnarinnar en að hækka á móti fjármagnstekjuskatt.

Samfylkingin mun fylgja kjarapakkanum eftir á Alþingi á næstu dögum með því að leggja fram breytingartillögur við fjárlög ríkisstjórnarinnar. 

Verjum heimilisbókhaldið

13 milljarðar í kjarabætur

Falla frá gjaldahækkunum ríkisstjórnar

  • Krónutölugjöld hækki um 2,5% í stað 7,7% á milli ára

Hækka húsnæðisbætur til leigjenda

  • Hækkun um 10% og tímabundin leigubremsa að danskri og skoskri fyrirmynd 

Hækka vaxtabætur til millitekjufólks

  • Eignaskerðingamörk hækki um 50% eins og íbúðaverð frá 2020

Hækka barnabætur til fjölskyldna

  • Þrír milljarðar til hækkunar á fjárhæð með barni og viðmiðunarmörkum 

Tvöfalda framlög til uppbyggingar

  • Stofnframlög til íbúðauppbyggingar verði ekki helminguð heldur tvöfölduð 2023

Vinnum gegn verðbólgu

17 milljarðar í mótvægisaðgerðir

Hækka fjármagnstekjuskatt

  • Hækkun úr 22% í 25% sem fellur nær eingöngu á tekjuhæstu 10% landsmanna

Loka „ehf.-gatinu“ svokallaða

  • Takmarka möguleika fólks til að telja launatekjur fram sem fjármagnstekjur

Leggja álag á veiðigjöld stórútgerða

  • Hvalrekaskattur á metarðsemi stærri útgerða vegna verðhækkana sjávarafurða

Afturkalla bankaskattslækkun að hluta

  • Fjögurra milljarða hækkun á bankaskatti sem var lækkaður um sex milljarða 2020