Ár uppbyggingar fram undan

Við getum litið stolt til baka á síðustu ár og hvernig við tókumst á við heimsfaraldurinn og margvíslegar afleiðingar hans.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar var víða í framlínunni og vann magnað starf. Því verður seint fullþakkað. Endurreisnaráætlun borgarinnar, Græna planið, reyndist framúrskarandi í þessum verkefnum og gerir enn. Borgin vex út úr vandanum sem kóvid skildi eftir sig. Það er lykilatriði að taka á fjármálum en standa um leið vörð um mikilvæga þjónustu og tryggja að grænn vöxtur og innviðafjárfesting haldi áfram þótt verðbólga og þensla hafi tekið við af samdrætti og atvinnuleysi.
Endurskoðað aðalskipulag Reykjavíkur til 2040 leggur grunn að kraftmikilli húsnæðisuppbyggingu fyrir alla tekjuhópa. Áhersla er lögð á skilgreinda þróunarása borgarinnar og uppbyggingu húsnæðis í tengslum við hágæða almenningssamgöngur og að Reykjavík verði framúrskarandi hjólaborg. Árið 2023 munu framkvæmdir hefjast við Borgarlínu og brú fyrir Fossvog. Hjólreiðaáætlun verður framfylgt af krafti og vonir standa til að árið hefjist á tímamótasamkomulagi milli ríkis og borgar um leiðandi hlutverk borgarinnar í húsnæðisuppbyggingu næstu ára. Framkvæmdir við íbúðir á Ártúnshöfða og í Skerjafirði munu hefjast af krafti, Hlemmtorg fær loks endanlega andlitslyftingu og framkvæmdir í Kvos við hið magnaða svæði milli Lækjartorgs og Hörpu taka á sig endanlega mynd. Þremur og hálfum milljarði króna verður á næsta ári varið til nýrra leikskólaplássa fyrir yngstu börnin til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og viðhalds- og endurbótaverkefni í skólum og leikskólum verða áfram í forgangi.
Reykjavík er ein hundrað borga í Evrópu sem ESB hefur valið til að vera í forystu í leiðangri að því að ná kolefnishlutleysi. Borgin vill því vinna áfram þétt með atvinnulífi og samfélaginu í að ná þeim árangri í loftslagsmálum sem þarf og móta Loftslagssamning Reykjavíkurborgar til að tryggja þann árangur og aðgerðir sem þarf.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. janúar 2023.