Verkefnið hverfur ekkert

Helga Vala fréttabanner

Frumvarp um útlendinga hefur verið afgreitt úr nefnd. Fulltrúar VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks styðja með því aðför dómsmálaráðherra að heilsu og velferð fólks á flótta.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með lífi frumvarpsins á undanförnum árum því í hvert sinn sem það er lagt fram bætist eitthvað við sem gerir það sýnu verra en áður. Svo virðist sem um sé að ræða innanhúsmót hjá Sjálfstæðisflokknum í að finna nýjar leiðir til að þvæla kerfið til muna og kalla það skilvirkni. Frumvarpið skiptir engu máli fyrir stöðuna í dag en mun hafa veruleg neikvæð áhrif á líf og velferð þess fólks sem hingað leitar.

Það virðist gleymast að í Úkraínu geysar stríð og þaðan hefur fordæmalaus fjöldi fólks flúið.  Íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að veita því fólki vernd. Nægir að hafa úkraínskt vegabréf til að vera kominn með kennitölu og atvinnuleyfi innan nokkurra daga og flest hafa fengið vinnu. Þá tók kærunefnd útlendingamála afstöðu, í samræmi við tilmæli flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, um að fólk frá Venesúela sem hingað kemur ætti að fá vernd. Þar ríkir Vargöld, réttarríkið stendur höllum fæti og réttindi borgara fara þverrandi. 80% umsækjenda um vernd á síðasta ári koma frá þessum tveimur ríkjum.

Frumvarpið er með öðrum orðum ekki að fara að taka á svokölluðum flóttamannavanda nema síður sé. Innihald þess er hins vegar að fara að auka á vandann því með því eykst skriffinska, vandi fólks í leit að vernd eykst og verkefnin stækka og færast til annarra stjórnvalda.

Ein tillaga stjórnarflokkanna er að fella niður alla þjónustu við fólk á flótta 30 dögum eftir að endanleg synjun á stjórnsýslustigi hefur fengist. Einhver telja slíkt eðlilegt, enda eigi ekki að halda áfram að þjónusta fólk sem ekki er ætlunin að veita hér vernd. En þessi tillaga snýst ekkert um það heldur þann fámenna hóp sem ekki er hægt að senda á brott vegna samningsleysis Íslands við upprunaríki þeirra. Nokkur ríki heims neita einfaldlega að taka á móti fólki sem flúið hefur land. Einnig er hópur sem ekki á ferðaskilríki og getur ekki orðið sér úti um þau. Það að fella niður þjónustu við þetta fólk, eitthvað sem ekkert norrænu ríkjanna lætur hvarfla að sér, færir vandann yfir á sveitarfélögin og réttarvörslukerfið. Fólk sem getur ekki farið hverfur ekki heldur lendir á götunni. Það fólk sem getur farið fer, ýmist sjálfviljugt eða í þvingaðri brottvísun.

Á næstu vikum munum við sjá stjórnarflokkana styðja ómannúðlegar breytingar á útlendingalögum, í stað þess að styðja tillögur okkar um að skipuð verði þverpólitísk nefnd til að yfirfara lögin með tilliti til skilvirkni og mannúðar. Því hafna stjórnarflokkarnir og fylgja því útlendingastefnu sjálfstæðisflokks til hins ýtrasta.