Guðrún og verðmætin

Logi

Nýlega birti Félag atvinnurekenda niðurstöður skýrslu um launa- og fjöldaþróun opinberra starfsmanna undanfarin ár.

Logi Einarsson Þingflokksformaður

Af því tilefni var haft eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, þingmanni og verðandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í miðlinum Vísi: „Verðmætin í íslensku samfélagi verða til í einkageiranum, þau verða til á almenna markaðnum, þannig við megum aldrei gleyma því að hlúa að fyrirtækjunum í landinu.“

Vissulega þarf að búa fyrirtækjarekstri góða umgjörð en hún er fráleit og þreytt sú margtuggna klisja að verðmætin verði eingöngu til í einkarekstri. Öllum ætti að vera augljóst að þau skapast í góðu samspili einkageirans og hins opinberra. Það er að minnsta kosti hætt við að verðmætasköpun fyrirtækja skryppi talsvert saman án öflugra skóla og heilbrigðisþjónustu, skilvirkrar löggæslu og dómstóla, góðra almenningssamgangna, veður- og hafrannsókna, alþjóðasamninga og þúsunda annarra starfa sem mestmegnis eru unnin af opinberum starfsmönnum.

Á ráðstefnu í tilefni þessarar sömu skýrslu, flutti sama ráðherraefni ræðu og sagði meðal annars: „Eins og ykkur er held ég flestum kunnugt, þá skipti ég um starfsvettvang fyrir um 18 mánuðum síðan. Og flest þekkið þið minn bakgrunn og því ætti ekki að koma ykkur á óvart að það versta við þessi nýju umskipti í mínu lífi, að þau voru að verða opinber starfsmaður. Þá vísa ég til þess að ég sé nú á framfæri annarra en sjálfrar mín …“ Fyrir utan þekkingarleysið og hrokann sem birtast í ummælunum er þetta býsna köld kveðja til alls þess opinbera starfsfólks sem vann í framlínustörfum fyrir örfáum misserum, þegar Covid-bylgjan lék landsmenn grátt, meðal annars til að verja hagkerfið.

Þegar draumur Guðrúnar Hafsteinsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um ráðherrastól verður loks uppfylltur mun hún hafa á sinni könnu fjölda stofnana, þar sem þúsundir opinberra starfsmanna sinna fjölbreyttum og dýrmætum störfum. Ég óska henni góðs gengis en vona innilega að áður en til þess kemur, átti hún sig á mikilvægi og virði starfa þessa fólks fyrir verðmætasköpun landsins en líti ekki þannig á að þau séu á framfæri annarra en sjálfra sín.