Leiðtogar jafnaðarflokka og alþýðusambanda funda í Helsinki

Árlegur leiðtogafundur Samráðsnefndar jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum (SAMAK)  fer fram í Helsinki í dag.

Utanríkis- og öryggismál eru efst á blaði á fundinum: SAMAK vill Finnland og Svíþjóð í NATO, Úkraínu í ESB og aukið varnarsamstarf Norðurlanda samkvæmt yfirlýsingu fundarins.

Vilja Finnland og Svíþjóð í NATO og Úkraínu í ESB

Yfirlýsing fundarins kallar eftir því að Finnland og Svíþjóð fái inngöngu í NATO eins fljótt og verða má og að varnarsamstarf Norðurlanda verði aukið. Þá heita leiðtogar norrænu jafnaðarflokkanna og alþýðusambandanna fullum stuðningi við Úkraínu uns sigur hefur unnist á innrásarher Rússlands og einnig við uppbyggingu landsins að stríðinu loknu. Loks er lýst yfir stuðningi við aðildarumsókn Úkraínu að Evrópusambandinu. Yfirlýsinguna má lesa hér.

Samfylkingin og ASÍ eiga fulltrúa á fundinum

Leiðtogafundinn sækja Kristján Þórður Snæbjarnarson forseti ASÍ og Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður Samfylkingarinnar, þar sem formaðurinn Kristrún Frostadóttir er í fæðingarorlofi. Sjálfur leiðtogafundurinn er lokaður en Kristján Þórður og Guðmundur Árni taka einnig þátt í pallborðsumræðum með kollegum sínum frá Norðurlöndum.

Auk Kristjáns Þórðar og Guðmundar Árna er Oddný Harðardóttir í Helsinki gestur fundarins á vegum jafnaðarflokka í Norðurlandaráði og Gunnar Örn Stephensen, gjaldkeri Ungs jafnaðarfólks, á vegum jafnaðarfólks í Norðurlandaráði æskunnar. Þá er Kjartan Valgarðsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn SAMAK, einnig á staðnum.

Þrír núverandi og tveir fyrrverandi forsætisráðherrar taka þátt

Kristrún Frostadóttir ávarpar fundinn með rafrænni kveðju úr fæðingarorlofinu. Á meðal annarra þátttakenda á leiðtogafundinum eru Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands, Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs og Magdalena Andersson fv. forsætisráðherra Svíþjóðar og Jens Stoltenberg.

Þingkosningar fara fram í Finnlandi 2. apríl næstkomandi og framundan eru fundahöld Finna og Svía með Tyrkjum vegna NATO.

Frekari upplýsingar um leiðtogafundinn má finna á vef SAMAK.