Þau kveiktu eldinn og eiga að njóta hans

„Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá“, segir í ljóði Davíðs Stefánssonar. Það má með sanni segja um elsta hluta íslensku þjóðarinnar. Eftirlaunafólkið sem er rúmlega 50 þúsund.

Þetta er fólkið sem fæddist í og uppúr kreppunni, þraukaði af umróti seinni heimstyrjaldarinnar og byggði upp þjóðfélagið frá örbirgð til allsnægta. Fólkið sem umbreytti þjóðfélaginu frá því að vera fátæk þjóð á hjara veraldar í að vera ein af ríkustu þjóðum heims.

Þetta er fólkið sem fær á sig ósækilega og niðrandi stimpla eins og „fráflæðisvandi“. Vandi, sem er í rauninni ekkert annað en kerfisvandi sem núverandi stjórnvöld bera fulla ábyrgð á. Allt önnur kynslóð.

Þetta er fólkið sem talað er um af óvirðingu sem þurfalinga og bagga á þjóðfélaginu, þetta er þó fólkið sem borgar hæstu skattprósentuna af litlum launum sínum til þjóðfélagsins, í formi allskyns skerðinga og jaðarskatta. 

Þetta er fólkið sem greiðir marga tugi milljarða til nærsamfélags síns í formi útsvars, sem er svo mikilvægt framlag að sum sveitarfélög væru ekki á vetur setjandi án þessa fólks, enda er þetta mun hærri upphæð en þetta sama fólk kostar þessi sömu samfélög. Þau eru enn miklu meira en sjálfbær, þetta fólk.

Þetta er fólkið sem er úthrópað sem ógn við þjóðfélagið af því að þeim fer fjölgandi, en þó er íslenska þjóðin sú yngsta í Evrópu og verður svo á næstu árum. 

Þetta er fólkið sem fer síðast allra í Evrópu, ásamt norskum eldri borgurum, á eftirlaun. Aðeins í þessum tveim löndum er eftirlaunaaldur almennt 67 ár, sá hæsti í Evrópu. 

Þetta er fólkið sem byggði upp velferðarþjóðfélagið, en á nú undir högg að sækja í velferðarþjóðfélaginu.

Þetta fólk er ekki baggi á íslensku þjóðfélagi. Þetta fólk hefur unnið langan vinnudag, á langri starfsævi og er enn að skila sínu til samfélagsins, og það af naumum tekjum sínum.

Þetta er fólkið sem reisti Ísland úr örbirgð til allsnægta, en þúsundir þeirra þurfa að hverfa aftur til þeirra kjara sem þau bjuggu við í upphafi. Þau eru aftur sett á byrjunarreitinn frá því fyrir miðbik síðustu aldar, þegar þjóðin öll var fátæk.

Hættum að tala niður til þessa fólks. Tölum við það og um það, af virðingu og ábyrgð. Við höfum ekki efni á að fara illa með þetta fólk. Við höfum ekki efni á öðru en að gera þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi. Þau geta ekki beðið. Hefjumst handa strax. Þau eiga það inni. 

Þau kveiktu eldinn. Þau eiga að njóta hans.

 ------------------------------------------------------------
Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands.