Hús­næðis­markaðurinn, Fram­sókn og Hafnar­fjörður

Árni Rúnar, hafnarfjörður,

Þegar hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir er það til marks um ráða- og stefnuleysi.

Árni Rúnar, Hafnarfjörður, kosningar, 2022
Árni Rúnar Þorvaldsson Kennari, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og 4. í Suðvestur

Þessi orð leituðu á mig þegar ég las grein Ágústs Bjarna Garðarssonar, þingsmanns Framsóknarflokksins og fyrrum bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, á Vísi fyrr í vikunni. 

Þar lýsti þingmaðurinn þungum áhyggjum sínum af húsnæðismálum og mestar áhyggjur hafði hann af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði. Hann fór yfir erfiðar og óhagstæðar efnahagsaðstæður eins og verðbólgu í tveggja stafa tölu og vexti í hæstu hæðum. 

Ríkisstjórninni hafa verið mislagðar hendur í efnahagsmálum og fólk finnur það á eigin skinni. Að mati þingmannsins er þó ein vonarglæta í myrkrinu og það eru aðgerðir innviðaráðherra, formanns Framsóknarflokksins. Sú vonarglæta felst í því að rammasamningur innviðaráðherra og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við sveitarfélögin muni skapa meiri fyrirsjáanleika í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Því skýtur það skökku við að flokksfélagar þingmannsins í samvinnu við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í heimbæ hans, Hafnarfirði, hafi í byrjun febrúar fellt tillögu Samfylkingarinnar í bæjarstjórn um gerð rammasamkomulags við ríkið um húsnæðisuppbyggingu. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd og Framsókn talar tungum tveim, með einni á þingi en annarri í héraði. Reykjavíkurborg hefur riðið á vaðið og gert slíkt samkomulag við ríkið en þar er Framsóknarflokkurinn í meirihluta með Samfylkingunni, Viðreisn og Pírötum.

Áhugaleysi meirihlutans á félagslegum lausnum

Lausatök hafa verið á húsnæðismálunum í Hafnarfirði og uppbygging íbúðarhúsnæðis gengið hægt, raunar svo hægt að árið 2020 var fólksfækkun í bænum – í fyrsta sinn í áratugi. Þá var einmitt Ágúst Bjarni Garðarsson forystumaður Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það kjörtímabil einkenndist af áhugaleysi á félagslegum lausnum í húsnæðismálum og þar sýna verkin merkin svo ekki verður um villst. Því miður hefur engin breyting orðið á nýju kjörtímabili, áhuga- og metnaðarleysið er ennþá ríkjandi. Lítið sem ekkert hefur gengið að fjölga félagslegum íbúðum í eigu sveitarfélagsins með þeim afleiðingum að biðlistar lengjast og fólk situr eftir í brýnni þörf eftir húsnæði. Ekki er útlit fyrir að staðan batni neitt á næstu árum því tæplega 1% þeirra rúmlega þúsund íbúða, sem eru á framkvæmdastigi í bænum, eru ætlaðar í félagslega íbúðakerfið. Hlutfallið er 12% þegar kemur að íbúðum á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Þetta er órafjarri þeim samningsmarkmiðum sem lagt er upp með í rammasamkomulagi Reykjavíkur og ríkisins um að 30% allra nýrra íbúða verði hagkvæmar íbúðir og 5% verði félagslegar íbúðir í eigu sveitarfélagsins. Uppleggið í tillögu jafnaðarfólks í Hafnarfirði, sem fulltrúar Framsóknar felldu í samfloti með Sjálfstæðisflokknum, var samhljóða markmiðum rammasamkomulags Reykjavíkur og ríkisins. Áhugaleysið kemur ekki á óvart þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut því hann lítur ekki á húsnæðismál sem velferðarmál heldur fyrst og fremst markað fyrir útvalda til að græða á. Vonbrigðin snúa að Framsókn sem hefur dansað eftir þessum fölsku tónum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á undanförnum árum.

Vonandi ekki orðin tóm

Nú hefur þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrum forystumaður flokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar kallað eftir því að sveitarfélögin gangi til samninga við ríkið eins og Samfylkingin í Hafnarfirði hefur lagt til. Vonandi eru þetta ekki orðin tóm og boltinn er hjá Framsóknarflokknum í Hafnarfirði, sem getur afsannað það með því að samþykkja fyrrnefnda tillögu Samfylkingarinnar. Það mun ekki standa á fulltrúum Samfylkingarinnar að ganga til samninga við ríkið um gerð húsnæðissáttmála fyrir Hafnarfjörð. Ágúst Bjarni Garðarsson getur treyst því.