Leikrit án innihalds

Helga Vala fréttabanner

Í gær samþykktu stjórnarflokkarnir á Alþingi útlendingafrumvarpið.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Það er ómannúðlegt, mun ekki auka skilvirkni í kerfinu og mun bitna á öðrum grunnstoðum samfélagsins. Það mun heldur engu breyta um fjölda umsækjenda um vernd hér á landi.

Breytingum sem gerðar voru við lokameðferð þingsins var einungis ætlað að bjarga andliti þingmanna Vinstri grænna og Framsóknar sem talað hafa fyrir mannúðlegri stefnu í málefnum flóttafólks en gera það svo ekki í verki, enda engar raunverulegar breytingar á núverandi framkvæmd þar á ferð.

Allsherjar- og menntamálanefnd barst fjöldi umsagna sem voru nánast allar neikvæðar utan þeirra sem komu frá ráðuneytinu sjálfu. Í umsögnum frá Rauða krossinum og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, svo dæmi séu tekin, komu fram skýrar tillögur um hvernig mætti gera frumvarpið ögn skárra en stjórnarliðar gerðu bókstaflega ekkert með þær tillögur.

Það virðist sem stjórnarflokkarnir séu staddir í einhverju leikriti, nokkuð fyrirsjáanlegu þó og leiðigjörnu til lengdar. Fyrir nokkrum vikum var látið líta út fyrir að Vinstri græn ætluðu sér að koma til leiðar einhverjum breytingum á frumvarpinu með því að taka það inn í nefnd til breytingar milli annarrar og þriðju umræðu og lét forsætisráðherra meira að segja hafa það eftir sér í fjölmiðlum. En hvað gerðist? Það urðu engar raunverulegar breytingar. Málið kom til nefndar, gestir mættu á fund en þegar það átti sér stað höfðu stjórnarliðar þegar ritað nýtt nefndarálit sem var samþykkt á sama fundi án þess að tekið væri tillit til orða gestanna.

Það sem hefur gerst hér er að löggjafarvaldið hefur tapað fyrir framkvæmdarvaldinu eða við skulum segja tapað fyrir lífslokameðferð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem virðist vera það eina sem stjórnarliðar brenna fyrir.

Stjórnarþingmenn vinna svona inni í nefndum þingsins. Leiksýning ríkisstjórnarinnar inniheldur leikrit án innihalds, með leiktjöld án lita og með leikara sem bíða bara eftir aðstoð hvíslara í sviðsvæng svo þeir viti hvað eigi að segja næst.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. mars 2023.