Sameiginlegur styrkur Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum

Við lifum á viðsjárverðum tímum á sviði öryggismála. Innrás Rússlands í Úkraínu er miskunnarlaus og í trássi við allar þjóðaréttarreglur.

Stríðið ógnar friði á öllu meginlandi Evrópu. Stuðningur okkar við Úkraínu á að vera stöðugur og til langframa.

Staðan í öryggismálum hefur versnað gífurlega og samskiptin við Rússland eru gjörbreytt. Því er ærin ástæða til að dýpka og efla samstarf í varnar- og öryggismálum. Aðild Svía og Finna að NATO mun efla norrænt samstarf í varnarmálum.

Við þessar breyttu aðstæður í öryggismálum er brýnt að sameiginleg stefna njóti stuðnings allra þjóðþinga Norðurlanda. Við, norrænir jafnaðarmenn, viljum að komið verði á fót norrænni öryggis- og varnarmálanefnd sem skipuð verði þingmönnum af öllum þjóðþingum landanna. Henni verði falið að vinna skýrslu sem verði lögð fyrir þingin um pólitískar áherslur í öryggis- og varnarmálum og meginstefnu til framtíðar. Aðkoma þjóðþinganna veitir styrk og stöðugleika til lengri tíma litið. Skýrsluna verður að sjálfsögðu að bera undir stjórnvöld landanna en áhersla er lögð á samráð við þjóðþingin.

Meginviðfangsefni norrænu nefndarinnar gætu verið sameiginleg greining á þróun öryggismála á norðurslóðum, í Norður-Atlantshafi og Eystrasalti ásamt þróun allsherjarvarna og áherslu á net- og upplýsingaöryggi.

Með sameiginlegri nálgun og metnaði styrkist norrænt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. NATO verður áfram meginvettvangur landanna en það sem hægt er að gera á norrænum vettvangi eflir NATO í heild sinni.

Með skýrri sameiginlegri sýn á varnarmál og ógnir við lýðræði okkar senda Norðurlöndin mikilvæg skilaboð til umheimsins. Umfram allt er hún til vitnis um að við erum reiðubúin að verja þau lýðræðislegu gildi sem þjóðir okkar eru byggðar á.

Ef við getum kortlagt sameiginlegan styrk okkar og færni til að bregðast við ógnum, styrkir það þau stjórnvöld sem bera ábyrgð á borgaralegum og hernaðarlegum viðbúnaði í hverju landi. Við eigum að beita borgaralegum og hernaðarlegum auðlindum okkar til að skapa hámarksöryggi.

Með öflugra og víðtækara norrænu samstarfi getum við stuðlað að stöðugleika, friði og frelsi á Norðurlöndum.

 

Annette Lind þingkona, Þjóðþingi Danmerkur

Erkki Tuomioja þingmaður, Ríkisdegi Finnlands

Heléne Björklund þingkona, Ríkisdegi Svíþjóðar

Jorodd Asphjell þingmaður, Stórþingi Noregs

Oddný G. Harðardóttir þingkona, Alþingi Íslands

Peter Hultqvist þingmaður, Ríkisdegi Svíþjóðar