Nýtt merki Samfylkingarinnar

 Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands hefur tekið upp nýtt merki sem er rauð rós, alþjóðlegt tákn sósíaldemókrata.

Tillaga um þetta var lögð fram af formanni stjórnar verkalýðsmálaráðs flokksins og samþykkt á landsfundi síðasta haust þegar Kristrún Frostadóttir var kjörin formaður. Nýja rósin var síðan afhjúpuð á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði 4. mars síðastliðinn.

Rósin er klassísk og sterk í einfaldleika sínum. Samhliða nýju merki tekur Samfylkingin síðan í gagnið nýtt heildarútlit með nýjum lit, nýrri leturgerð og nýrri hönnun. Þar er rauði liturinn mest áberandi — enda einkennislitur jafnaðarmennsku um allan heim. Rauði liturinn er klassískur og kröftugri en sá sem Samfylkingin hefur notast við á undanförnum árum.

Það er engin tilviljun. Rauða rósin og þessi klassíski rauði litur eru táknræn birtingarmynd þess að Samfylkingin ætlar aftur í kjarna jafnaðarstefnunnar með því að leggja ofuráherslu á kjör, velferð og efnahag venjulegs fólks á Íslandi. Það er upplegg Kristrún Frostadóttur og nýrrar forystu flokksins.

Frá stofnun Samfylkingarinnar árið 2000 hefur merki flokksins verið rauð kúla eða eldhnöttur. Allir systurflokkar Samfylkingarinnar á Norðurlöndum nota hins vegar rauða rós sem merki, að finnskum sósíaldemókrötum undanskildum, og það sama á við um flesta jafnaðarflokka Evrópu. Rauða rósin á sér langa sögu sem tákn fyrir andóf gegn kúgun og gerræði. Sagt hefur verið að rauði liturinn tákni baráttuna gegn veraldlegri fátækt en að rósin sjálf sé tákn fyrir baráttu gegn andlegri fátækt.

Nýtt einkenni og útlit Samfylkingarinnar var unnið af Sigga Oddssyni. Siggi er grafískur hönnuður sem býr og starfar sem hönnunarstjóri í New York. Hann hefur 15 ára reynslu af mörkunarvinnu og hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verkefni sín, þar á meðal Hönnunarverðlaun Íslands og Art Directors Club of Europe Award. 

Kristrún Frostadóttir um nýtt merki Samfylkingarinnar:

„Þetta skiptir máli. Rauða rósin er okkar merki og við erum að taka aftur upp sterkari og klassískari rauðan lit. Það er til marks um sjálfstraust og sterka sannfæringu. Auðvitað er þetta bara lítill hluti af þeim breytingum sem við erum að ráðast í en allt svona skiptir máli. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda tengingu við yfir hundrað ára sögu og sigurgöngu jafnaðarstefnunnar — sem hefur getið af sér farsælustu samfélög í heiminum. Ég er stolt af nýju rósinni og nýja útlitinu og vil þakka Sigga Odds kærlega fyrir vel unnið verk.“