Við þurfum skýra sýn

Helga Vala fréttabanner

Þessa dagana finnur íslenskur almenningur það verulega á eigin skinni hvernig það er að hafa við stjórnvölinn ríkisstjórn sem nær yfir hið breiða svið stjórnmálanna.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Hinu breiða sviði hefur verið haldið á lofti sem einhvers konar dyggðarmerki samvinnuhæfileika leiðtoga ríkisstjórnarinnar en hefur sjaldan verið jafn áberandi merki stjórnleysis og nú, þegar verðbólga er orðin meiri en á fyrstu dögum eftir bankahrun og stefnuleysið er algjört.

Ráðherrar í ríkisstjórninni eru hættir að tala um stöðugleika enda slíku ekki fyrir að finna heldur nefna frekar að stjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald og því þurfi einstaka ráðherrar ekki að hafa skoðanir á gerðum annarra ráðherra í ríkisstjórninni. Þá skreyta ráðherrar sig með fyrirvörum við mál samráðherra, þegar hrykktir í baklandi hinnar ósamstígu ríkisstjórnar, en meintir fyrirvarar eru hvorki opinberaðir né hafa nokkur einustu áhrif.

Inni í þinginu birtist ósamstaða stjórnarflokkanna með því að fulltrúar meirihlutans í nefndum þingsins setja alla sína orku í að fela stjórnleysið og bíða svo skipana frá ráðherrum sínum. Mál eru afgreidd út úr nefndum með hraði, helst án nokkurrar umræðu, svo minni líkur séu á að ágreiningurinn verði gerður opinber.

Á sama tíma og allt er gert til að halda þessu málamyndahjónabandi gangandi er verðubólgudraugurinn orðinn að ærsladraugi sem skekur hvern anga íslensks samfélags. Heimilin í landinu finna drauginn í hverju horni síns bókhalds á sama tíma og ríkisstjórnin eykur útgjöld verulega, helst í fjölgun ráðherra og starfsfólks þeirra en vanrækja fjármögnun á grunninnviðum heilbrigðis, velferðar, samgangna og löggæslu. Tveggja milljarða verðmiðinn sem skattgreiðendur fengu vegna stólaleiks ríkisstjórnar eftir kosningarnar 2021 reyndist vanáætlaður vegna innanhúsglímu stjórnarflokka á sama tíma og ekki er hægt að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu eða húsnæðisframboð sem mun setja bönd á drauginn.

Á næstu vikum munum við fá að líta nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Árlega hefur hún birst okkur sem stjórnlaust fleyti án markmiða og framtíðarsýnar enda stjórnendur úrræðalausir þegar kemur að kjörum almennings í landinu. Margboðaðri húsnæðisstefnu er enn beðið, stórsókn í heilbrigðismálum er víðsfjarri og launakjör brenna í óðaverðbólgu. Þetta finnum við öll í okkar daglega lífi en svör stjórnvalda eru fábrotin.

Við þurfum skýra sýn í stjórnmálum, sem forgangsraðar velferð og almannahagsmunum framar sérhagsmunum. Það verður að þora að mynda hér ríkisstjórn sem hugsar fyrst og fremst um heildarhagsmuni í íslensku samfélagi með jöfnuð að leiðarljósi, hagsmuni íslensks samfélags til framtíðar en ekki skammsýna ríkisstjórn sem rekur samfélagið frá degi til dags.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2023.