Yfirlýsing SAMAK um sameiginlega sýn á utanríkis- og öryggismál

Jukka-Pekka Flander / SDP

Utanríkis- og öryggismál voru í forgrunni á árlegum leiðtogafundi Samráðsnefndar jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum (SAMAK) sem fram fór í Helsinki í gær.

Á fundinum var samþykkt yfirlýsing í nafni SAMAK sem lýsir sameiginlegri sýn jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum í utanríkis- og öryggismálum. Yfirlýsinguna má lesa á íslensku hér fyrir neðan.

„Yfirlýsingin er afdráttarlaus og það er afar þýðingarmikið að jafnaðarflokkar og verkalýðshreyfing Norðurlanda skuli sammælast um svo skýra stefnu í utanríkis- og öryggismálum. Innrás Rússlands í Úkraínu hefur breytt öryggismálum í Evrópu til frambúðar og við því þurfum við að bregðast. Það er best gert í krafti samstöðu. Þar njótum við góðs af nánu samstarfi við Norðurlöndin og NATO,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem ávarpaði leiðtogafundinn með rafrænni kveðju úr fæðingarorlofinu.

Samfylkingin og ASÍ eiga aðild að SAMAK og Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, og Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, sátu fundinn. Sérstakur gestur var Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og á meðal annarrra þátttakenda voru þrír núverandi og tveir fyrrverandi forsætisráðherrar Norðurlanda.

* * * * *

Norrænir jafnaðarflokkar og alþýðusambönd í Helsinki:

Við höfum sameiginlega sýn á utanríkis- og öryggismál

Ár er liðið síðan Rússland réðst með ólögmætum og grimmúðlegum hætti inn í Úkraínu og hefur það valdið úkraínsku þjóðinni miklum þjáningum, eyðileggingu og dauða. Okkar mikilvægasta verkefni er að styðja Úkraínu af fullum krafti til að landið geti bundið endi á þessar stríðshörmungar með sigri og í framhaldinu hafið uppbyggingu og fengið aðild að Evrópusambandinu. Viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi verður að halda áfram ásamt annars konar þrýstingi svo lengi sem Úkraína telur ekki forsendur fyrir friði.

Rússland hefur neitað grannríkjum sínum um rétt þeirra til að ákveða eigin stefnu í varnarmálum og brýtur þannig gegn reglum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalögum. Hernaðaraðgerðir Rússlands eru alvarlegasta ógn síðustu áratuga við sameiginlegt öryggi okkar, alþjóðafrið og stöðugleika. Stríðsrekstur Rússlands hefur breytt öryggismálum í Evrópu með óafturkræfum hætti. Við þessar aðstæður hafa Finnland og Svíþjóð sótt um inngöngu í NATO.

Sameiginlegt markmið okkar á Norðurlöndum er að bæði Svíþjóð og Finnland verði fullgildir aðilar að NATO svo fljótt sem verða má. Það mun styrkja bæði Norðurlönd og NATO.

Þegar Finnland og Svíþjóð fá aðild að NATO verður hlutverk Norðurlanda í Evrópu enn þýðingarmeira. Það mun skapa forsendur fyrir auknu varnarsamstarfi Norðurlanda. Samtímis eykst ábyrgð ríkjanna á að styrkja sameiginlega stefnu Evrópu í utanríkis- og varnarmálum.

* * * * *

Þessi yfirlýsing var samþykkt á ársfundi SAMAK í Paasitorni, Helsinki, Finnlandi 28. febrúar 2023. SAMAK er Samráðsnefnd jafnaðarflokka og alþýðusambanda Norðurlanda.