Hættulegt aðgerðarleysi ríkisstjórnar
Það var sjokkerandi að horfa á sjónvarpsþáttinn Kveik í vikunni, þar sem fjallað var um óboðlegar og hættulegar búsetuaðstæður leigjenda á Íslandi í dag og opinberaðist þar fullkomið andvaraleysi stjórnvalda.
Hrikalegur leigumarkaður er okkur ljós þegar kemur að leigufjárhæðum sem hækka stöðugt og skorti á leiguhúsnæði sem gerir markaðinn að þeim dýragarði sem raun ber vitni. Skorturinn leiðir til ofsagróða leigusala sem því miður eru ekki allir með siðferðið sín megin eins og fjölmiðlar hafa sýnt okkur. Með rannsókn blaðamanna á Heimildinni og svo í Kveik í gær höfum við fengið að sjá svart á hvítu hvernig fólk neyðist til að búa, einnig með börn sín, í húsnæði sem er hættulegt lífi þeirra og heilsu, allt í krafti ofríkis leigusala á markaði enda húsnæðisneyðin slík að engar bjargir virðast í augsýn. Ekkert þak er á hversu mikið má rukka enda virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekki telja slíkt við hæfi. Markaðslögmálið skal ríkja.
Já, þetta eru dramatískar lýsingar en ég hvet lesendur til að horfa á þáttinn og lesa ítrekaðar umfjallanir Heimildarinnar um stöðuna og það hvernig stjórnvöld hafa sýnt fullkomið andvaraleysi við smíði laga og reglna þrátt fyrir fögur fyrirheit í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg árið 2020 þegar þrjár manneskjur týndu lífi vegna búsetu í hættulegu leiguhúsnæði.
Eftir brunann hófst vinna Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, við tillögur að úrbótum vegna brunavarna í íbúðarhúsnæði. Var tillögunum skilað til þáv. félagsmálaráðherra í mars 2021 þar sem lögð var til nauðsynleg heimild slökkviliðs til að taka út íbúðarhúsnæði sem breytt hefur verið í fjölbýli eins og var með umrætt húsnæði sem brann. Nú tveimur árum síðar er ekkert að frétta og því hefur slökkviliðið enn engar heimildir til úttektar á leiguhúsnæði og var það staðfest af héraðsdómi fyrr á árinu þegar gerð var tilraun til að fá heimild til úttektar á því húsnæði sem Kveikur fjallaði meðal annars um. Fullkomið andvaraleysi stjórnvalda getur þarna viðhaldið lífshættulegu ástand í leiguhúsnæði. Önnur tillaga var skylduskráning leiguhúsnæðis í gagnagrunn HMS en við slíka lagasetningu fyrir síðustu áramót laumuðu stjórnarflokkarnir inn breytingatillögu á síðustu stundu sem undanskilur þá leigusala sem leigja út íbúðir án þess að slíkt flokkist í atvinnuskyni. Með því var komið í veg fyrir ofangreint eftirlit á aðbúnaði sem og eftirlit með leiguverði á markaði.
Stjórnarflokkarnir mega ekki heyra minnst á hugmyndir okkar í Samfylkingunni um leigubremsur eins og þekkjast víða um heim, sem myndu takmarka óhóflegar hækkanir leigufjárhæða, enda virðist frjálshyggjan ríkja meðal stjórnarflokkanna í þessum málum eins og öðrum.