Meirihlutinn leggst gegn næturstrætó

Árni Rúnar, hafnarfjörður,

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur nú í tvígang fellt tillögu Samfylkingarinnar um að ná samningi við Strætó bs. um að hefja á nýjan leik akstur næturstrætó á milli höfuðborgarinnar og Hafnarfjarðar.

Það eru veruleg vonbrigði að meirihlutinn sýni málinu ekki áhuga en akstri næturstrætó var hætt í Covid faraldrinum. Engin greiningarvinna hefur farið fram hjá Hafnarfjarðabæ og meirihlutinn leikur enn einn tafaleikinn. Ætla að bíða og sjá hvernig gengur hjá Reykjavík, sem hefur gert samning við Strætó bs. um akstur næturstrætó innan borgarinnar. Þar á bæ standa borgarfulltrúar með unga fólkinu og öflugum almenningssamgöngum á meðan fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins sýna málinu tómlæti og áhugaleysi í Hafnarfirði. Á næsta bæjarstjórnarfundi mun Samfylkingin leggja tillöguna fram að nýju og veita þannig fulltrúum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins enn eitt tækifærið til þess að reka af sér slyðruorðið og sýna að þau standi með unga fólkinu í bænum og öflugum almenningssamgöngum.

Hækkum frárennslisgjöld Garðabæjar

Nú liggur fyrir að kostnaður vegna næturstrætó verður að hámarki 10 milljónir króna á ári. Tillaga okkar í Samfylkingunni gerir ráð fyrir að þeim kostnaði verði mætt með hækkun þjónustugjalda Garðabæjar vegna viðtöku frárennslis þannig að þau verði um 30 milljónir á árinu í stað þeirra 12 milljóna króna sem Garðabær greiðir í dag. Það samkomulag hefur nýlega komist í fréttirnar eftir að rúmlega 100 þúsund lítrar af díselolíu láku í gegnum lagnakerfi Hafnarfjarðar frá bensínstöð Costco í Garðabæ og fullt tilefni til þess að hækka þessar greiðslur frá Garðabæ.

Komið í veg fyrir öruggan og hagkvæman ferðamáta

Áhugaleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kemur í veg fyrir að íbúar geti nýtt sér öruggan, umhverfisvænan og hagkvæman ferðamáta fram eftir nóttu. Og auðvitað eiga sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að fylgja fordæmi Reykjavíkur enda nýtist næturstrætó ekki síst þeim sem búa í ytri byggðum höfuðborgarsvæðisins. Öll hafa þessi sveitafélög skrifað undir samgöngusáttmála sem er einmitt ætlað að auka umferðaröryggi og greiða leið fyrir skilvirka, hagkvæma og fjölbreytta ferðamáta. Næturstrætó er mikilvægur liður í því og er sérstaklega mikilvægur fyrir þau sem þurfa að ferðast um langar vegalengdir, hvort sem fólk er að ferðast til og frá vinnu, námi eða skemmtanalífinu og eykur öryggi fólks til muna.

Nú er rétti tíminn til að svara kallinu

Það er ekki eftir neinu að bíða og bæjarstjórn Hafnarfjarðar á að sýna metnað og taka forystu í málinu. Fulltrúr meirihlutans svara vonandi kallinu og samþykkja tillöguna á næsta fundi bæjarstjórnar. Ef ekki þá mun Samfylkingin halda áfram að berjast fyrir öruggum og öflugum almenningssamgöngum og berjast fyrir því að akstur næturstrætó hefjist á nýjan leik milli höfuðborgarinnar og Hafnarfjarðar.