Neyðarástand vegna ópíóðafaraldurs

Þórunn,  kraginn, banner,

Á Íslandi geisar ópíóðafaraldur með óbærilegum fórnarkostnaði fyrir samfélagið. Fréttir berast í hverri viku af ótímabærum andlátum fólks í blóma lífsins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Síðastliðin 8 ár hefur einstaklingum sem fengu lyfjameðferð við ópíóðafíkn á sjúkrahúsinu Vogi fjölgað úr 117 í 347 og eru nú tæplega fjórðungur innlagna. Á síðasta ári voru 36% þeirra sem lögðust inn á Vog vegna ópíóðafíknar 25 ára og yngri.

Ópíóðar og morfínlyf eru sterk, mjög ávanabindandi og bráðdrepandi. 35 af þeim sem komið hafa á Vog létust á fyrstu þrem mánuðum þessa árs. 35 mannslíf á einungis þremur mánuðum. Sé sú tala framreiknuð gætum við misst 80 einstaklinga úr ópíóðafíkn á þessu ári!

Samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands fær sjúkrahúsið Vogur greitt fyrir meðferð 90 einstaklinga á ári. Árið 2022 fengu 347 manns slíka meðferð. Mismunurinn er 257 manns. Þetta dæmi gengur augljóslega ekki upp.

Í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag spurði ég Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um nauðsynlegar aðgerðir vegna þessa alvarlega ástands. Fram kom að hann hyggst leggja tillögur fyrir ríkisstjórnina á fundi á morgun.

Í mínum huga eru nokkrar brýnar aðgerðir lífsnauðsynlegar:

- Að leyfa lausasölu á lyfinu Naloxone, svo auðveldara sé að bjarga fólki sem lendir í öndunarstoppi vegna neyslu.

- Að koma á fót morfínklíník, með öðrum orðum öruggu neyslurými fyrir fíkla en í því felst augljós forvörn eins og yfirlæknir á Vogi hefur bent á.

- Að ríkissjóður geri Sjúkratryggingum kleift að semja við Vog um mun fleiri meðferðir en þær 90 sem nú eru í samningum. Það er algerlega óviðunandi staða að Vogur fái greitt fyrir meðferð 90 einstaklinga af þeim 347 sem þurftu á henni að halda á árinu 2022.

Það ríkir neyðarástand vegna ópíóðafaraldurs á Íslandi. Ef um hópslys væri að ræða væri búið að virkja allar neyðaráætlanir í stjórnkerfinu.