Stoltur gestgjafi

Helga Vala fréttabanner

Í dag er stór dagur í sögu Íslands en einnig stór dagur í sögu Evrópuráðsins þegar leiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins funda hér á landi, en aðeins þrisvar sinnum áður hafa leiðtogarnir komið saman til fundar frá stofnun ráðsins.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Nú eru einhverjir sem gera sér ekki fulla grein fyrir tilurð Evrópuráðsins og fyrir hvað það stendur, halda jafnvel að Evrópuráð og Evrópusamband sé einn og sami hluturinn en svo er alls ekki. Til Evrópuráðsins var stofnað í maí 1949, í kjölfar seinni heimsstyrjaldar og eru aðildarríki þess nú 46, eftir að Rússum var vísað út úr Evrópuráðinu í kjölfar innrásar þeirra inn í Úkraínu. Hlutverk Evrópuráðsins breyttist nokkuð eftir lok Kalda stríðsins en fékk svo töluvert aukið vægi eftir innrás Rússa inn í Úkraínu á síðasta ári. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 1950.

Meginhlutverk Evrópuráðsins er að efla samvinnu og ekki síður samkennd meðal aðildarríkjanna, með höfuðáherslu á mannréttindi, lýðræðislega stjórnarhætti, sammannleg gildi og almenn lífsgæði íbúa álfunnar, en þar á meðal eru umhverfismál, fjölmiðlar og réttarkerfið, menntun og menning og félagsleg réttindi grundvallarmál svo dæmi séu tekin.  Samvinna Evrópuráðsríkjanna er í margskonar formi, gerðir eru alþjóðasamningar eins og Mannréttindasáttmáli Evrópu og félagsmálasáttmáli Evrópu sem hafa svo áhrif á löggjöf aðildarríkjanna og stjórnkerfið í hverju ríki. Þannig hafa þessir samningar haft afgerandi áhrif á lífsgæði okkar og verndað okkar grundvallarréttindi.

Ísland er fullvalda ríki og í krafti fullveldis er það aðili að Evrópuráðinu. Ég tel það skipta máli að við séum einmitt virk í þessu samstarfi því við höfum margt að miðla og ég ber þá von í brjósti að út af þessum fundi komi skýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins um mikilvægi lýðræðis og mannréttinda en ekki síður til rússneskra stjórnvalda um fordæmingu á árásarstríði þeirra á Úkraínu og mögulegum stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni.

Já, ég er stoltur gestgjafi og óska þeim sem halda utan um þennan risastóra viðburð góðs gengis í dag og næstu daga.

Greinin birtist á visi.is 16. maí 2023.