Aðeins 50.000 kr. í vasann af 150.000 kr. lífeyrissjóðstekjum
Frítekjumark lífeyristekna er 25 þúsund krónur á mánuði.
Allar tekjur úr lífeyrissjóði umfram það koma til frádráttar á greiðslum almannatrygginga.
Hvað þýðir þetta?
Tökum raunhæft dæmi, af eldri konu sem býr ein.
Segjum að hún hafi alið börn, rekið heimili og unnið slítandi störf á alltof lágum launum en engu að síður náð að safna sér lífeyrisréttindum upp á 150 þúsund krónur á mánuði.
Hvað stendur eftir þegar hún fer á eftirlaun?
Svarið er 50 þúsund krónur.
Aðeins þriðjungur af 150 þúsund krónunum situr eftir sem auknar ráðstöfunartekjur konunnar í hverjum mánuði.
Ríkið tekur restina í formi skatta og skerðinga.
Þannig er jaðarskattbyrðin af þessum 150 þúsund króna lífeyrisréttindum 67 prósent.
Er þetta það sem lagt var upp með þegar almennum lífeyrissjóðum var komið á fót í kjölfar kjarasamninga 1969, að greiðslur úr lífeyrissjóðunum yrðu dregnar svo rækilega frá greiðslum almannatrygginga að ríkið sjálft yrði stóri lífeyrisþegi lífeyrissjóðanna?
Greinin birtisti á visi.is 25. sept. 2023.