Hlemmur - Fortíð

Þórunn,  kraginn, banner,

Herferðin gegn betri almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu gefur reglulega tilefni til að líta á dagatalið: Er árið ekki örugglega 2023?

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Sjálfstæðismenn í borginni fara hamförum yfir öllu sem horfir til bóta í samgöngukerfinu en félagar þeirra í nágrannasveitarfélögunum í Kraganum undirrituðu allir sem einn samgöngusáttmálann við ríkið, einhuga um gjörninginn. Ríkisvaldið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér samning. Honum verður ekki breytt einhliða, hvorki af ríkinu né sveitarfélögunum.

Greiðar og góðar almenningssamgöngur styrkja innviði, bæta umferðaröryggi, minnka mengun, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, bæta lýðheilsu og lífsgæði og já, ég ætla að segja það; færa okkur fegurra mannlíf. Það er bæði arðbært og skynsamlegt frá öllum þessum sjónarhornum að fjárfesta í borgarlínunni. Hin samfélagslega arðbærni nemur tugum milljarða króna.

Kostnaðaraukning einstakra framkvæmda í borgarlínuverkefninu er í takt við aðrar stórframkvæmdir innan vegakerfisins. Þær eru ítrekað vanáætlaðar á undirbúningsstigi og fara fram úr á framkvæmdastiginu. Upp í hugann koma samgöngubætur á borð við Héðinsfjarðar- og Vaðlaheiðargöng. Ég ætla ekki að mæla kostnaðaraukanum bót en við vitum hvernig hann er oftast til kominn. Verðlag og vextir hafa hækkað, einnig aðföng og framkvæmdakostnaður almennt.

Árið 2022 voru 287.550 fólksbifreiðar skráðar á landinu en til samanburðar voru þær 85.723 árið 2006. Þetta eru rúmlega 200 þúsund fleiri bílar en óku um vegi landsins fyrir rúmlega 15 árum. Inn í þessum tölum eru ekki sendibílar, vöruflutningabílar og hópbifreiðar en í tölunni fyrir síðasta ár eru rúmlega 30.000 bílaleigubílar. Vegakerfið ræður ekki við þennan fjölda og við sem samfélag gerum það ekki heldur. Það er löngu tímabært að horfast í augu við það.

Hvert einasta mannsbarn sem ferðast hefur út fyrir landsteinana veit að evrópskar borgir leggja mikinn metnað í þróun almenningssamgangna og hafa lengi gert. Það er ekki vegna þess að fólk í útlöndum sé almennt á móti einkabílnum eða telji almenningssamgöngur einungis henta tekjulágum. Heldur vegna þess að borgir sem vilja vaxa og dafna, laða til sín nýja íbúa, minnka mengun og sporna með öllum ráðum gegn afleiðingum loftslagsbreytinga, þær bjóða allar uppá tíðar og greiðar almenningssamgöngur sem þorri íbúa nýtir daglega til að komast hratt og örugglega á milli staða.

Það er ekkert byltingarkennt við borgarlínuna. Hún er nauðsynleg og arðbær fjárfesting og framkvæmd. Hún er í raun og veru það allra minnsta sem almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu kemst af með til að standast kröfur samtímans. Þau sem halda öðru fram hafa greinilega tekið sér far með Hlemmi – Fortíð.  

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 9. sept. 2023.