Rétturinn til að deyja með reisn

Þórunn,  kraginn, banner,

Dánaraðstoð var til umfjöllunar á Fundi fólksins í Norræna húsinu um liðna helgi að frumkvæði félagsins Lífsvirðingar.

Samtalið var hvort tveggja upplýsandi og yfirvegað og þakka ber Lífsvirðingu fyrir að setja viðkvæmt og vandmeðfarið mál á dagskrá. Á fundinum mátti heyra að margir hafa einlægan áhuga á því að ræða um dánaraðstoð, hvaða skilyrðum hún þurfi að lúta og hvort íslenskt samfélag sé reiðubúið að lögleiða hana.

Rétt er að taka skýrt fram að Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands hefur ekki mótað sér stefnu um dánaraðstoð og er því líklega á svipuðum stað og þorri landsmanna að eiga eftir að vega og meta kosti og galla þess að lögleiða hana. Ég tel brýnt að fram fari rökræða og skoðanaskipti á vettvangi stjórnmálanna og ekki síður meðal almennings um málið.

Dánaraðstoð er sá verknaður að binda enda á líf sjúklings af ásetningi og að ósk hans. Nokkur ríki í Evrópu leyfa dánaraðstoð að uppfylltum ströngum skilyrðum. Holland hefur lögleitt dánaraðstoð sem læknar einir geta veitt og samkvæmt upplýsingum á vef Lífsvirðingar eru skilyrðin eftirfarandi:

 - Að læknirinn sé sannfærður um að ósk sjúklingsins sé sjálfviljug og vel ígrunduð,
 - að hann sé sannfærður um að þjáning sjúklingsins sé viðvarandi (ómeðhöndlanleg) og óbærileg,
 - hafi upplýst sjúklinginn um ástand hans og horfur,
 - og sjúklingurinn séu sannfærðir um að engin önnur skynsamleg úrræði séu í boði,
 - hafi ráðfært sig við a.m.k. einn annan, óháðan lækni, sem hefur vitjað sjúklingsins og veitt skriflegt álit sitt um skilyrðin,
 - gæti læknisfræðilegrar vandvirkni við að binda enda á líf sjúklingsins eða aðstoða hann við sjálfsvíg.
 
Dánaraðstoð snýst um að binda enda á þjáningu. Hún er ekki líknandi meðferð né lífslokameðferð. Nýlega var afstaða þriggja heilbrigðisstétta, lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til dánaraðstoðar könnuð og benda niðurstöður til þess að vaxandi fylgi sé meðal þeirra við að hana. Ég vil láta þess getið að Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, hefur haft forgöngu um þetta mál á Alþingi. Innan læknastéttarinnar er andstaðan við dánaraðstoð mest og þarf ekki að koma á óvart í ljósi siðareglna og Hippókratesareiðsins. Aðstoðin verður ekki veitt nema af lækni og því er afstaða lækna til hennar forsenda þess að hægt sé að taka umræðuna lengra. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja Læknafélagið og Siðfræðiráð þess til að taka dánaraðstoð til vandlegrar umræðu innan sinna raða. Mér er til efs að nokkur stjórnmálamaður vilji þrýsta lagabreytingum í gegn í andstöðu við vilja starfandi lækna. Þeim mun mikilvægara er að heilbrigðisstéttir opni samtalið í sínum röðum.

Hver einasta mannvera á rétt til þess að lifa með reisn en hún á líka rétt á að deyja með reisn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. september 2023.