Öfgar og illska

Þegar þessi orð eru rituð er allsherjarinnrás Ísraelshers á Gaza ströndina yfirvofandi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður

Milljón manns hefur verið gert að rýma norðurhluta Gaza svo að Ísraelsher geti gengið á milli bols og höfuðs á hryðjuverkamönnum Hamas.

Vígamenn Hamas frömdu skelfileg hryðjuverk innan landamæra Ísraels 7. október sl. Árás sem á engan sinn líka í sögu Ísraelsríkis; fjöldamorð voru framin og fólk tekið í gíslingu. Engum var eirt, hvorki börnum né gamalmennum. Manni rennur kalt vatn á milli skinns og hörunds við að heyra lýsingar á voðaverkunum. Ekkert getur afsakað þau.

Íbúar Gaza eru rúmlega 2 milljónir talsins. Tæplega helmingur þeirra er börn og ungmenni yngri en 19 ára. Þau þekkja lítið annað en skort og fátækt, ofbeldi og loftárásir. Nú eru þau lögð á flótta og enginn veit hvar eigi að hýsa þau eða hver ætli að gefa þeim að borða. Það er ekkert minna en katastrófa sem minnir óþægilega mikið á Nakba, flótta Palestínumanna frá heimkynnum sínum árið 1947.

Smáríkið Ísland lék lykilhlutverk á fundi Sameinuðu þjóðanna 1948 þegar uppskipting Palestínu og Ísraels var ákveðin. Ísland var einnig fyrsta vestræna lýðræðisríkið sem viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samþykkt Alþingið árið 2011. Við berum því bæði pólitíska og siðferðilega ábyrgð gagnvart Ísrael og Palestínu.

Ísrael og Gaza hafa verið í klóm pólitískra öfgaafla um langt skeið. Benjamín Netanyahu leiðir ríkisstjórn í Ísrael sem er samansafn hægri öfgamanna sem reiðir sig á stuðning bókstafstrúaðra gyðinga. Það fólk hefur lítinn sem engan áhuga á því að styðja tveggja ríkja lausnina en hefur einbeitt sér að því að gefa ofbeldisfullu landránsfólki lausan tauminn, auk þess að grafa undan réttarríkinu með fyrirætlunum um veikingu dómstóla. Sem betur fer hefur almenningur í Ísrael mótmælt þeim áformum með aðdáunarverðum þrótti á liðnu ári. Hamas eru systursamtök Hezbollah í Líbanon og njóta hernaðarstuðnings og velþóknunar klerkaveldisins í Íran. Kosningar hafa ekki verið haldnar á heimastjórnarsvæðum Palestínu frá árinu 2006.

Lýðræði og friði stafar mikil hætta af öfgahreyfingum sem þessum og ég fullyrði að þær þjóna ekki sameiginlegum hagsmunum þess fólks sem byggir Ísrael og Palestínu.

Samfylkingin fordæmir stríðsglæpi Hamas og Ísraelshers og skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir því á alþjóðlegum vettvangi að tryggja nauðsynlega mannúðaraðstoð til almennra borgara, tafarlaust vopnahlé og að þrýst verði á Ísrael að fylgja alþjóðalögum og binda enda á aðskilnaðarstefnu undanfarinna áratuga. Öfgar og illska með tilheyrandi grimmd og blóðsúthellingum leysa engan vanda og stuðla sannarlega ekki að friði.

Greinin birtist í Morgnblaðinu 17. október 2023.