Stjórnmálaályktun flokksstjórnarfundar

Stjórnmálaályktun flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar í Hofi á Akureyri 14. október 2023

Skiptum um kúrs og endurheimtum efnahagslegan stöðugleika

Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands vill að skipt verði um kúrs við stjórn efnahagsmála. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er komin í þrot. Það birtist meðal annars í mikilli verðbólgu og háum vöxtum sem leggjast þungt á heimilin og fyrirtækin í landinu. Þetta bætist ofan á alvarlegan vanda í velferðarmálum og skeytingarleysi gagnvart afkomu fólks og öryggi.

Samfylkingin kynnti kjarapakka í tengslum við fjárlög í fyrra sem heldur enn gildi sínu. Hugmyndin er að verja heimilisbókhaldið og vinna um leið gegn verðbólgu með því að að taka á þenslunni þar sem þenslan er í raun og veru. Þetta kallar á sértækar aðhaldsaðgerðir á tekjuhlið ríkissjóðs og sértækar aðgerðir á borð við vaxtabætur og barnabætur, róttækar breytingar á leigumarkaði þ.m.t. leigubremsa og ívilnun til uppbyggingar á almennum íbúðum. Þannig verði stuðlað að stöðugleika á vinnumarkaði en til að árangur náist í baráttu gegn verðbólgu er algert lykilatriði að slíkur kjarapakki sé fullfjármagnaður og gott betur.

Nú þarf að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Samfylkingin skorar á ríkisstjórnina að koma sér strax að verki ellegar sjá sóma sinn í því að hætta og boða til kosninga. Samfylkingin er tilbúin í verkin.

Fordæmum stríðsglæpi fyrir botni Miðjarðarhafs

Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands fordæmir með afgerandi hætti þá stríðsglæpi sem framdir hafa verið fyrir botni Miðjarðarhafs af hálfu Ísraelshers og Hamas-samtakanna. Þá skorar Samfylkingin á ríkisstjórnina að hún beiti sér fyrir því á alþjóðlegum vettvangi að tryggja nauðsynlega mannúðaraðstoð til almennra borgara, tafarlaust vopnahlé og að þrýst verði á Ísrael að fylgja alþjóðalögum og binda endi á aðskilnaðarstefnu undanfarinna áratuga.

Árið 2011 varð Ísland fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu sem var gert með samhljóða samþykkt Alþingis undir forystu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Í sömu ályktun skoraði Alþingi á Ísraela og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna. Grundvallaratriði er gagnkvæm viðurkenning Ísraelsríkis og Palestínuríkis og að áhersla verði lögð á rétt flóttamanna til að snúa aftur til Palestínu. Samfylkingin vill árétta þessa afstöðu flokksins og Íslands og skorar á ríkisstjórnina að gera slíkt hið sama.