5.800 börn drepin á Gasa

Stríðið á Gasa hefur staðið í tæplega sjö vikur. Tala látinna var rúmlega 14 þúsund manns í gær. 70% þeirra eru konur og börn.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Í Ísrael féllu 1.200 manns í hryðjuverkaárás Hamas og 240 manns eru í gíslingu samtakanna, gamalt fólk, konur og börn þeirra á meðal. Í gær bárust fréttir af því að Ísraelsstjórn og Hamas hefðu samið um nokkurra daga vopnahlé, svokallað mannúðarhlé. Ísraelsher mun gera hlé á loftárásum gegn því að Hamas sleppi nokkrum tugum gísla úr haldi. En vopnahlé þýðir ekki að stríðinu sé lokið. Hamas-liðar ætla ekki að sleppa öllum gíslunum nema vopnahléið verði lengt og ríkisstjórn Ísraels segir stríðinu ekki ljúka fyrr en Hamas hafi verið útrýmt. Útlitið er svart og enginn friður í augsýn.

Hryllingi loftárásanna á Gasa verður varla lýst með orðum og engum blöðum um það að fletta að Ísraelsher hefur þverbrotið ákvæði Genfarsáttmálanna og er sekur um stríðsglæpi. Tíminn verður að leiða í ljós hvort það hafi nokkrar afleiðingar fyrir Ísraelsríki en því miður bendir fátt til þess að forystumenn þess muni nokkurn tíma svara til saka fyrir stríðsglæpina. Ekkert réttlætir fjöldamorð á börnum og öðrum óbreyttum borgurum. Þau eru ekki hryðjuverkamenn Hamas. Þau eru peð í þessu stríði. Saklaus fórnarlömb manna beggja vegna víglínunnar sem telja hömlulaust ofbeldi einu leiðina til að vinna málstað sínum fylgi.

Fimm-þúsund-og-átta-hundruð börn hafa verið drepin á Gasa-ströndinni. Það er án nokkurs efa óhugnanlegasta met sem sögur fara af í stríðsrekstri seinni tíma. Þá hafa ekki verið talin börnin og ungmennin sem liggja grafin í húsarústum á Gasa og gætu verið allt að 2 þúsund talsins. Líf slökkt í sturluðu ofbeldi tilviljanakenndra loftárása.

Frá upphafi þessa stríðs hefur verið óljóst hvernig Ísrael ætli að ná markmiði sínu um útrýmingu Hamas og ekki síður hvað eigi að taka við þegar búið verður að leggja stóran hluta Gasa í rúst og hrekja íbúana næstum alla á flótta frá heimilum sínum. Hvað hyggst Benjamín Netanjahú gera við íbúa Palestínu á Gasa og Vesturbakkanum þegar stríðinu lýkur. Hvert er endataflið? Það veit enginn. Meira að segja dyggustu stuðningsmenn Ísraels í Bandaríkjunum eru farnir að viðra áhyggjur sínar af stöðunni.

Á Íslandi tókst Alþingi mánuði eftir að stríðið hófst að koma sér saman um ályktun þar sem hernaðurinn og stríðsglæpirnir voru fordæmdir og hvatt til tafarlauss vopnahlés. Vika er síðan Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um svokallað mannúðarhlé. En það þarf meira til að stöðva þetta stríð. Nokkurra daga hlé er nauðsynlegt en lang brýnast er að binda enda á stríðið.

Blóðbaðinu og barnamorðunum verður að linna!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2023.