Gleðilegan fullveldisdag

„Í dag er dagur hinna mörgu, en ekki hinna fáu, dagur fólksins, sá dagur sem er tileinkaður málstað fólksins, frelsisins til að lifa eins og mönnum sæmir.“ - Halldór Laxness 1935.

Kristrún Frostadóttir Formaður Samfylkingarinnar

Þann 1. desember árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Það var mikilvægur áfangi sem við minnumst í dag.

En fengið fullveldi ríkis er enginn endapunktur í frelsisbaráttu þjóðar. Fólkið sem bjó í landinu fékk til dæmis ekki almennan kosningarétt fyrr en síðar – og fátækralögin alræmdu giltu fram á fjórða áratug síðustu aldar. Raunverulegt sjálfstæði og frelsi fólks ræðst af því hvernig er farið með fullveldisréttinn.

Það velferðarsamfélag sem við höfum byggt upp innan ramma þjóðríkisins fyllir okkur stolti þegar það virkar sem skyldi. Það er öflugt í alþjóðlegum samanburði þó að víða þurfi að gera miklu betur. Og tilgangur þess er einmitt að stuðla að raunverulegu sjálfstæði og frelsi þjóðar – til dæmis undan því að lifa í óöryggi um lífsafkomu, húsnæði eða mannréttindi að öðru leyti.

Þannig fléttast saman markmið um sterka velferð og stolta þjóð – sem nýtir fullveldi sitt til fullnustu í þágu hinna mörgu en ekki hinna fáu. Ég lít á það sem verkefni mitt og ábyrgð, bæði sem þjóðkjörinn þingmaður og sem formaður Samfylkingarinnar, að vinna að þessu jöfnum höndum og virkja til þess samstöðu fólksins í landinu.

Að lokum spyr ég eins og Halldór Laxness gerði af sama tilefni á fyrrihluta síðustu aldar: „Hvað líður frelsisbaráttu hinnar íslensku þjóðar, fólksins, almenníngs, hins venjulega manns, þín, mín? Er henni lokið? Eða heldur hún áfram?“

Og ef hún heldur áfram – hver eru þá næsta skref?

Með fullveldiskveðju,

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands