Alþjóðakerfi á brauðfótum

Fyrir Alþingi liggur tillaga frá mér og fleirum þess efnis að þjóðarmorð gegn Armenum á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar verði viðurkennt og fordæmt af löggjafarsamkomu Íslendinga.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Þeir vofveiflegu atburðir áttu sér stað fyrir meira en 100 árum en það dregur ekki úr gildi þess að horfast í augu við söguna og viðurkenna voðaverkin, líkt og Þýskaland hefur gert vegna helfararinnar gegn gyðingum. Þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð eru glæpir gegn mannkyni. Slíkir glæpir mega ekki líðast, gleymast eða endurtaka sig.

En þeir gera það samt eins og dæmin sanna.

Alþjóðakerfið sem reist var með stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1945 og stofnana á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann byggist á heimssýn og hagsmunum sigurvegara seinni heimsstyrjaldarinnar. Í þeim hildarleik voru færðar ómetanlegar fórnir til að sigra mannhatursstefnu fasismans. Sigurvegararnir höfðu vit og framsýni til að styðja við uppbyggingu Þýskalands og Japans að lokinni styrjöldinni og stuðla þannig að friði og efnahagsvexti. Þetta fyrirkomulag var hvorki fullkomið né óumdeilt og til varð tvípóla alþjóðakerfi, kalt stríð og kjarnorkuógn sem enn vofir yfir.

Rúmlega þrír áratugir eru liðnir frá falli Sovétríkjanna og í raun frá falli þess alþjóðakerfis sem friðurinn að lokinni seinni heimstyrjöldinni byggði á. Á þeim tíma hafa brotist út fleiri stríð en ég hef tölu á og þjóðernishreinsanir eiga sér enn stað án nokkurra afleiðinga fyrir stríðandi fylkingar. Alþjóðakerfið sem studdi stofnun Ísraelsríkis árið 1948 hefur í dag hvorki pólitískan vilja né burði til að stöðva þjóðernishreinsanir Ísraelshers á Gasa.

Nær allir íbúar Gasa eru á flótta, eða tæplega 2 milljónir. Rúmlega 22 þúsund manns hafa verið drepin, þar af 9 þúsund börn! 57 þúsund manns eru særð og slösuð. Hungursneyð vofir yfir og nær enga læknishjálp er lengur að fá á Gasa. Öfgapólitík og ofstæki stýrði hryðjuverkaárás Hamas á óbreytta borgara í Ísrael 7. okt. sl. En engu minna ofstæki ræður för í viðbrögðum Ísraelsstjórnar, sem er fjármögnuð og vopnuð af Bandaríkjunum. Óskilyrtur stuðningur Bandaríkjastjórnar við Ísrael gerir Biden beinlínis að samverkamanni Netanjahús. Eina vonarglætan er að þessi stefna nýtur ekki lengur sama stuðnings í Bandaríkjunum og hún gerði um áratugaskeið.

Í upphafi árs 2024 má öllum vera ljóst að alþjóðakerfið stendur á brauðfótum. Það tryggir hvorki frið né öryggi. Ríkin 193 sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum eiga engan annan kost en að endurskoða samsetningu og hlutverk öryggisráðsins. Í dag er það lamað vegna neitunarvalds sigurvegara seinni heimstyrjaldarinnar og ófært um að stuðla að friðsamlegri lausn átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2024.