Kristrún í Kaupmannahöfn á verkalýðsþingi Norðurlanda

Formenn norrænna jafnaðarflokka.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, tekur nú þátt í verkalýðsþingi Norðurlanda í Kaupmannahöfn. Verkalýðsþingið er haldið á hverju ári á vegum SAMAK sem er Samráðsnefnd jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum.

Gestgjafi þingsins þetta árið er Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og fer það fram í ráðherrabústaðnum í Marienborg og á Verkalýðssafninu í Kaupmannahöfn. Á meðal helstu umfjöllunarefna eru staða launafólks, lýðræðis og norrænna velferðarsamfélaga í heimi hraðrar tækniþróunar og gervigreindar.

Samhliða er einnig haldinn leiðtogafundur SAMAK þar sem forystufólk norrænna jafnaðarflokka og alþýðusambanda ræður ráðum sínum. Samfylkingin og Alþýðusamband Íslands eru aðilar að SAMAK en Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, forfallaðist á síðustu stundu vegna stöðu kjarasamninga.

Vill læra um leiðina frá stjórn til stjórnarandstöðu
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt á verkalýðsþingi og leiðtogafundi SAMAK því í fyrra var ég nýbúin að eignast mitt annað barn. Þá fór varaformaður Samfylkingarinnar á þingið í minn stað ásamt forseta ASÍ,“ segir Kristrún. „Ég hlakka til að læra af kollegum mínum í jafnaðarflokkunum og í verkalýðshreyfingunni. Ekki síst um leiðina frá stjórnarandstöðu til stjórnar -- sem þau þekkja flest.“

„Við vitum að ábyrgð okkar er mikil. Okkur er treyst til þess að standa vörð um og styrkja norræna módelið. Sem er sú samfélagsgerð sem hefur skapað farsælustu samfélög heims. Ég hef lagt mikla áherslu á að Samfylkingin læri af systurflokkum okkar á Norðurlöndum og það er mikill ávinningur af því fyrir okkur. Við fórum til dæmis til Noregs um daginn, í tengslum við málefnavinnuna um atvinnu og samgöngur, og þar fengum við alla þá hjálp sem við hefðum getað ímyndað okkur frá bæði norska Verkamannaflokknum og Alþýðusambandinu (LO) í Noregi.“

Síðustu vikur hefur forysta Samfylkingarinnar heimsótt yfir 100 fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og þessi misserin stendur yfir hringferð flokksins um landið með áherslu á atvinnu og samgöngur. Allt er þetta liður í undirbúningi fyrir næstu Alþingiskosningar og þátttöku í nýrri ríkisstjórn.

Fulltrúar UJ og ASÍ-UNG á verkalýðsþinginu
Auk Kristrúnar eru fulltrúar Íslands á þinginu þau Ástþór Jón Ragnheiðarson forseti ASÍ-UNG, Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir forseti Ungs jafnaðarfólks, Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar og Kjartan Valgarðsson sem situr í stjórn SAMAK. Eins og áður segir forfallaðist Finnbjörn Hermannsson forseti ASÍ vegna stöðu kjarasamninga og það sama gildir um Kristján Þórð Snæbjarnarson forseta Rafiðnaðarsambands Íslands.

Að öðru leyti eru þingfulltrúar frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Grænlandi og Álandseyjum en frændur okkar Færeyingar urðu því miður veðurtepptir! Þingið hófst á hádegi í dag, þriðjudaginn 27. febrúar. Frekari fréttir verða sagðar á XS.is að því loknu.