Styrkur og þanþol íslenskunnar

Nokkur umræða hefur orðið um áform þingmanns Sjálfstæðisflokksins um að gera íslenskukunnáttu að kröfu fyrir leyfi til að aka leigubíl.

Hugmyndin er jafn heimskuleg og hún er fráleit. Nú er það svo að ekki er bannað lögum samkvæmt að setja skilyrði um íslenskukunnáttu í ákveðnum störfum en það verður að gerast með málefnalegum hætti. Í grein Eiríks Rögnvaldssonar sem nýlega birtist á Vísi segir prófessorinn fyrrverandi að áformin „séu innlegg í ófrægingarherferð gegn fólki af erlendum uppruna“. Þar hittir Eiríkur naglann á höfuðið eins og svo oft áður.
Tillöguflutningur sem þessi er til þess eins gerður að auka sundrung og ótta í samfélaginu og ýta undir fordóma gegn útlendingum, ekki síst ef þau hafa annan húðlit en þann ljósa sem algengastur er á Íslandi. Yfirskinið er vernd íslenskrar tungu en hugmyndin er sett fram í ógeðfelldu samhengi kynferðisglæps. Ef kynferðisofbeldi á Íslandi snerist um íslenskukunnáttu þyrfti glænýjar aðferðir til að berjast gegn því.
Sé vilji til þess að stuðla að aukinni notkun íslenskunnar á íslenskum vinnumarkaði og styðja íslenskukennslu fyrir innflytjendur er hægur leikur að fjármagna hana úr ríkissjóði svo að sómi sé að og semja við atvinnurekendur um kennslu á vinnutíma. Til þess þarf skýra pólitíska sýn og góðan pólitískan vilja.
Við sem erum uppalin á Íslandi erum nýfarin að heyra íslensku talaða með hreim á vinnustöðum og í fjölmiðlum. Það er stórkostlegur vitnisburður um þróun tungumáls og útbreiðslu þess að heyra það talað af fólki sem hefur annað móðurmál. Það sýnir styrk og þanþol íslenskunnar að ekki sé lengur ein útgáfa hennar – eitt samþykkt ríkismál – það sem heyrist og notað er opinberlega. Það er líka ávísun á betra og virkara lýðræði að ólíkar raddir fái að heyrast og taki sér rými á opinberum vettvangi.
Í kennslustund hjá Gísla Pálssyni fyrrverandi prófessor í mannfræði fyrir margt löngu heyrði ég fyrst talað um málótta. Á þeirri stundu opnaðist nýr skilningur fyrir mér á samfélaginu sem ég hafði alist upp í. Í því talaði fólk nefnilega „rétt“ mál og „rangt“ mál. Flámælið var dæmt rangt og því skipulega útrýmt. Þágufallssýkin illræmda var barin úr skólabörnum. Enginn þorði að opna munninn í ríkisútvarpinu nema að vera viss um að úr munninum kæmi ómengað gullaldarmál.
Sá tími er sem betur fer liðinn. Sköpum ekki nýjan aðskilnað. Gefum innflytjendum alvöru hlutdeild í íslensku samfélagi með því að gefa þeim kost á að læra íslensku sér að kostnaðarlausu. Styðjum miklu betur við börn sem eiga annað móðurmál en íslensku í skólakerfinu. Verum stórhuga og deilum íslenskunni með öllum sem hana vilja nota en gerum íslenskukunnáttu ekki að ómálefnalegu skilyrði fyrir virkni á vinnumarkaði.