Nýtt útspil: Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti í dag nýjasta útspil flokksins sem ber yfirskriftina Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum á fréttamannafundi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Útspilið er afrakstur af metnaðarfullu málefnastarfi síðustu 6 mánuði þar sem forystufólk flokksins heimsótti 180 fyrirtæki, fundaði með sérfræðingum og efndi til 26 opinna funda um atvinnu og samgöngur víðs vegar um landið.

Smellið hér til að lesa útspilið í heild: Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum

Þrjár grundvallarkröfur
„Þetta eru kröfur frá þjóðinni sem við höfum meðtekið og gerum að okkar: Þrjár grundvallarkröfur í atvinnu- og samgöngumálum sem Samfylkingin gerir til næstu ríkisstjórnar – sem við bjóðum okkur fram til að leiða,“ segir Kristrún í tilefni af kynningu á útspilinu. Þar eru krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum, krafa um skynsemi í auðlindastefnu og krafa um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland.

„Þannig felur Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum í sér eins konar verklýsingu fyrir nýja ríkisstjórn – þrjár grundvallarkröfur í mikilvægum málaflokkum og aðgerðir til árangurs svo hægt verði að ná settu marki á tveimur kjörtímabilum.“

Kristrún: „Stolt af útkomunni“

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á Laugarbakka síðastliðinn laugardag var útspilið kynnt fyrir flokksstjórn og tekið til umræðu. Næstu vikur mun forysta Samfylkingarinnar síðan fara með útspilið aftur til almennings og kynna áherslurnar í atvinnu- og samgöngumálum vítt og breitt um landið.

„Ég er hæstánægð með þessa vinnu og stolt af útkomunni. Ég hlakka til að kynna útspilið og veit að það mun nýtast okkur vel. Stýrihópurinn okkar stóð sig sannarlega í stykkinu og við þökkum kærlega fyrir þeirra framlag,“ segir Kristrún – en stýrihóp flokksins um atvinnu og samgöngur skipuðu Arna Lára Jónsdóttir formaður, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Margrét Kristmannsdóttir og Stefán Þór Eysteinsson.

Húsnæðis- og kjaramál næst á dagskrá
Áður hafði Samfylkingin kynnt útspilið Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum, þar sem sett voru fram fimm þjóðarmarkmið og örugg skref í rétt átt. Næst á dagskrá eru húsnæðis- og kjaramál sem verða í forgangi hjá flokknum næstu 6 mánuðina.

Á flokksstjórnarfundinum á Laugarbakka kynnti stjórn Samfylkingarinnar nýjan stýrihóp sem mun leiða málefnastarfið um húsnæðis- og kjaramál fram að landsfundi í haust. Stýrihópinn skipa þau Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður sem er formaður, Hildur Rós Guðbjargardóttir sveitarstjórnarfulltrúi úr Hafnarfirði, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs starfsgreinafélags á Austurlandi og 2. varaforseti ASÍ og Kolbeinn Hólmar Stefánsson dósent við félagsráðgjafadeild HÍ.

Frekari upplýsingar um framhaldið í þeirri vinnu verða sendar til flokksfélaga á næstunni.