Jóhann Páll býður öryrkjum til samtals á Alþingi

Öryrkjum Íslands boðið til Alþingis

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar býður öryrkjum Íslands til samtals á Alþingi um örorkufrumvarp ríkisstjórnarinnar.

„Ég hef átt góð samtöl við forystu og sérfræðinga ÖBÍ og Þroskahjálpar um þetta mál – en ég tel hafa skort á raunverulegt samráð hjá ríkisstjórninni við vinnslu frumvarpsins. Nú megum við engan tíma missa og því vil ég boða hinn almenna öryrkja til Alþingis til samtals. Samfylkingin mun í kjölfarið leggja fram breytingartillögur við örorkufrumvarpið,“ segir Jóhann Páll sem er bæði fulltrúi Samfylkingar í velferðarnefnd Alþingis og formaður í stýrihópi flokksins um húsnæðis- og kjaramál.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar til breytinga á örorkulífeyriskerfinu var lagt fram af félagsmálaráðherra á Alþingi í vor. Nú stefnir ríkisstjórnin að því að afgreiða málið með hraði fyrir þinglok um miðjan júní. Jóhann Páll hefur skrifað um stórhættulega ágalla á frumvarpinu sem hann telur brýnt að lagfæra. Þetta má meðal annars lesa um í nýlegri grein á vef Vísis.

„Verið hjartanlega velkomin þriðjudaginn 11. júní kl. 9:30 í nýbyggingu Alþingis (Smiðju). Gengið er inn um norðurinngang Smiðju sem snýr að Alþingishúsinu og Austurvelli. Boðið verður upp á kaffi og kruðerí og gert er ráð fyrir að fundurinn standi til kl. 11:00 eða þar um bil,“ segir Jóhann Páll í kynningu á fundinum.

Fundargestir eru beðnir að skrá sig á fundinn: Skráið ykkur með því að smella hér!