R-listabyltingin 30 ára
Vorið 1994 markaði merk pólitísk tímamót á Íslandi. Þá bauð Reykjavíkurlistinn fyrst fram til borgarstjórnar og sigraði með glæsibrag. Þau sem nutu þeirrar gæfu að taka þátt í kosningabaráttunni í borginni þetta afdrifaríka vor gleyma því aldrei. Vongleðin, baráttuandinn og samtakamátturinn var áþreifanlegur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem þá var þingkona Kvennalistans, var í baráttusæti listans og borgarstjóraefni hans. Hún var óskoraður leiðtogi þeirra fjögurra flokka sem að R-listanum stóðu: Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Kvennalista.
Félagshyggjufólk og femínista hafði lengi dreymt um sameinað stjórnmálaafl þeirra sem staðsettu sig á miðju og vinstri væng íslenskra stjórnmála en sundrungin hafði ráðið för áratugum saman. Við vissum öll í hjarta okkar að sameinuð gætum við náð árangri fyrir borgarbúa, sem ekki næðist á meðan orkan færi í karp um keisarans skegg. Og árangurinn lét ekki á sér standa.
Uppbygging leikskólanna er í mínum huga mesta lífsgæðabylting R-listans. Fólk er flest löngu búið að gleyma „þjóðflutningunum“ sem fram fóru í hverju hádegi á höfuðborgarsvæðinu þegar foreldrar barna á leikskólaaldri neyddust til að skreppa úr vinnunni og skutla börnum úr hálfs dags plássinu til dagmömmunnar eða í aðra gæslu. Árið 1994 voru 30% barna með heilsdagspláss í leikskóla. Átta árum síðar var það hlutfall komið í 80%. Árangurinn var sannkallaður leikbreytir fyrir íslenskt samfélag. Í dag þykir sjálfsagt að sveitarfélögin í landinu tryggi börnum og foreldrum örugga vistun að loknu fæðingarorlofi. Ætli það sé ekki stærst ástæðan fyrir því að Ísland er skilgreint sem jafnréttisparadís á alþjóðlegum mælikvörðum.
Fleiri þjóðþrifamál skulu tínd til. Hætt var að þjappa saman uppbyggingu félagslegs húsnæðis og algerlega ný nálgun innleidd félagslegri þjónustu með áherslu á réttindi fólks til aðstoðar. Þjónustumiðstöðvar voru færðar út í hverfin. R-listinn var líka grænn og á heiðurinn af því að skólphreinsa strandlengjuna höfuðborgarinnar. Stjórnkerfi borgarinnar var tekið í gegn og menning fyrirgreiðslu og frændhygli aflögð. Konur fengu loks að njóta menntunar og verðleika sinna og voru ráðnar í efstu stjórnunarstöður innan borgarkerfisins. R-listinn gerði borgina líka skemmtilegri og fallegri. Menningarnótt og Vetrarhátíð eru bara tvö dæmi vel heppnaða viðburði sem hafa fest sig rækilega í sessi.
R-listinn færði borgarbúum langþráðan nútímann, bæði í stjórnunarháttum og pólitík. Frumkvæði, djörfung og framsýni einkenndi ákvarðanir hans. Ákvarðana sem við njótum öll enn þann dag í dag.