Jöfnuður og læsi
Börnin sem setjast í fyrsta bekk grunnskóla í haust eru fædd árið 2018. Þau hafa þegar lifað heimsfaraldur með tilheyrandi raski á lífinu. Þau eru mjög líklega fær í að velja sér sjónvarpsefni með fjarstýringunni og kannski eiga þau jafnvel sinn eiginn ipad. Kennari sagði mér á dögunum að til væru börn sem væru að hefja skólagönguna og vildu bara tala saman á ensku. Kannski vegna þess að þau hafi meiri færni á ensku en íslensku. En samt er íslenska móðurmálið þeirra.
Móðurmálið er málið sem við hugsum á, málið sem við tölum þegar við lýsum tilfinningum okkar; gleði, reiði, sorg, uppnámi, ánægju og ást, svo örfáar séu nefndar. Án þess eigum við erfitt með að tjá vilja okkar. Ómálga börn gráta til að koma okkur í skilning um líðan sína þar til þau byrja að tala. Þau sem eru tvítyngd eiga tvo móðurmálsfjársjóði. Það eru mikil verðmæti sem þarf að hlúa að.
Við þurfum öll að læra að lesa. Það þýðir ekki að við séum öll hraðlæs eða jafnvíg á hvers kyns texta en lestur er lykill að þekkingu og hann er lykill að skilningi á heiminum sem við búum í. Og það sem meira er, hann leggur grunn að þátttöku í lýðræðissamfélagi.
Margt verið skrifað og sagt um læsi skólabarna hér á landi og árangur þeirra í PISA-könnunum. Sú síðasta var gerð árið 2022 og sýndi að lesskilningi hafði hrakað á tímum heimsfaraldursins, einnig stærðfræðilæsi og læsi á náttúruvísindi. Íslensk grunnskólabörn skora lægst í norrænum samanburði. Í PISA má líka finna góð tíðindi til dæmis að 80% barna finnst þau tilheyra skólasamfélaginu. Hlutfallið er reyndar lægra á meðal innflytjenda.
Niðurstöður PISA færa okkur fleiri umhugsunar- og viðfangsefni en beinar mælingar á árangri barna. Til dæmis þá grundvallarstaðreynd að börn sem standa verr að vígi félagslega og efnahagslega koma verr út í PISA. Áhrif verri félags- og efnahagslegrar stöðu foreldra hafa versnað frá síðustu könnun og það er sammerkt með öðrum Norðurlöndum. Hér er komið verkefni sem snertir kjarna jafnaðarstefnunnar og lífssýnar okkar sem hana aðhyllumst. Börn sem búa við félagslega og efnahagslegan stöðugleika eiga meiri möguleika og fá að öllum líkindum betri stuðning til náms heima. Það er ekki nóg að skólinn einn komi til móts við þessi börn í námi heldur verður annar stuðningur, félagslegur og efnahagslegur að vera fyrir hendi fyrir foreldra þessara sömu barna.
Við eigum enn langt í land með vinna úr afleiðingum heimsfaraldursins á börn og ungmenni. Það er eitt brýnasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag og snýst fyrst og fremst um að auka jöfnuðinn í samfélaginu en draga ekki úr honum. Það er höfuðerindi jafnaðarstefnunnar, því að aðeins þannig er hægt að stuðla að jöfnum tækifærum allra barna á Íslandi innan skólakerfisins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. september 2024