Bréf Kristrúnar til flokksfélaga
Kæru vinir
Nú er komið að kosningum!
Þá getur fólkið í landinu valið nýtt upphaf fyrir Ísland – og í því felast mikil tækifæri fyrir þjóðina.
Styrkjum Sigursjóðinn
Ég kalla eftir stuðningi þínum og jafnaðarfólks um land allt við kosningabaráttu Samfylkingarinnar. Fyrsta skrefið er að styrkja kosningasjóðinn okkar – Sigursjóð jafnaðarfólks – og það er ein besta og einfaldasta leiðin fyrir hinn almenna félaga til að leggja okkur lið núna, með einskiptisgreiðslu eða mánaðarlegum stuðningi.
Á næstu vikum munum við svo blása til kosningabaráttu af fullum krafti. Og þá verður verkefni okkar að virkja fjölda fólks með fjölbreyttum hætti til að tryggja sigur Samfylkingar.
Nú er tækifærið. Ég yrði virkilega þakklát fyrir þinn stuðning.
Nýtt upphaf eða meira af því sama
Við getum ekki tekið neinu sem gefnu um niðurstöður kosninga. Það er til staðar raunveruleg hætta á því að við vöknum þann 1. desember næstkomandi og núverandi ríkisstjórn haldi meirihluta sínum – eða geti bætt við sig fjórða flokknum. Það er líka til staðar raunveruleg hætta á harðri hægristjórn. Okkur jafnaðarfólki ber siðferðileg skylda til að bjóða þjóðinni betri valkost en hægriglundroða með flokksbrotum Bjarna og Sigmundar og fylgitunglum þeirra.
Samfylkingin vill jákvæða pólitík, stórhuga stjórnmál og nýtt upphaf fyrir Ísland. En ekki meira af því sama og þjóðin hefur þurft að þola síðustu árin í pólitíkinni.
Kosningastefna Samfylkingar verður kynnt fyrr en seinna. Þar mun þó fátt koma á óvart. Við munum leggja ofuráherslu á efnahag og velferð venjulegs fólks. Og greina frá því hvernig við viljum ná stjórn á fjármálum ríkisins, taka til í rekstrinum og koma aftur af stað sjálfbærum hagvexti og fjárfestingu í landinu, þar á meðal í samgöngu- og orkuinnviðum. Þá er líka ljóst að grípa verður til bráðaaðgerða í húsnæðismálum og ráðast í þjóðarátak í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.
Landsfundi frestað
Framkvæmdastjórn Samfylkingar kom saman fyrr í dag og tók ákvörðun um frestun landsfundar flokksins, sem til stóð að færi fram í Reykjavík dagana 15. og 16. nóvember næstkomandi. Mat framkvæmdastjórnar er að það sé best fyrir flokkinn, framgang okkar stefnu og þar með fólkið í landinu. Á næstu vikum verðum við að verja öllum okkar kröftum í kosningabaráttu og vinna saman sigur í kosningunum.
Þess í stað er líklegt að landsfundur Samfylkingar verði haldinn í mars eða apríl. Nánari upplýsingar um það verða sendar út síðar.
Hins vegar verður efnt til flokksstjórnarfundar fyrir kosningarnar til þess að staðfesta framboðslista flokksins, eins og jafnan er gert. Og svo verður vitaskuld efnt til funda og kosningagleði um land allt í aðdraganda kosninganna.
Takk fyrir stuðninginn!
Kristrún Frostadóttir,
formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands