Ræða Kristrúnar: „Hvað fyllir okkur þjóðarstolti?“

Fyrsta ræða Kristrúnar Frostadóttur frá boðun kosninga, flutt á Alþingi 17. október 2024.

I.
Forseti. Nú er það fólkið sem fær valdið aftur í sínar hendur, og tækifæri til að velja leiðina áfram fyrir Ísland: Nýtt upphaf – eða meira af því sama? Traust forysta – eða áframhaldandi óreiða? Sterk velferð, stolt þjóð – eða harðlínuhægristjórn?

Með leyfi forseta: „Ég hef aldrei hlakkað eins mikið til að kjósa. Það er eitthvað að gerast hérna núna og við þurfum nýtt upphaf.“ Það var eldri maður í Vogum á Vatnsleysuströnd sem sagði þetta við mig á einum af 32 fundum Samfylkingar í haust um húsnæðis- og kjaramál. Mér fannst þetta vel orðað. Og hann sagðist núna treysta sér aftur til þess að kjósa Samfylkinguna. Því að hann hefur séð okkur leiða breytingar – þar sem við byrjuðum á okkur sjálfum.

En nú er tími til breytinga við stjórn landsmála.

II.
Góðir landsmenn. Þann 30. nóvember verður kosið um framtíð Íslands. Og þá spyr ég: Hvað er það helst sem fyllir okkur þjóðarstolti? Náttúran? Menningin? Framúrskarandi Íslendingar sem fá tækifæri og ná glæsilegum árangri? Já. Allt þetta fyllir okkur stolti, og margt fleira mætti nefna.

En það særir stoltið þegar við pössum ekki upp á hvert annað – ef við pössum ekki upp á samfélagið okkar – og stöndum ekki undir sterkri velferð fyrir alla sem hér búa. Því það er eitthvað alveg sérstakt sem við eigum saman hér og sem bindur okkur saman. Þvert á landið, þvert á uppruna, þvert á kynslóðir.

Enda nístir það í hjartað – og fer beint í kjarnann á okkur – þegar við vitum að við erum að bregðast þeim sem síst skyldi:

• Það særir þjóðarstoltið að horfa upp á hvernig er farið með eldra fólk í landinu, sem á stutt eftir; að sitja með manneskju á spítalagangi sem er kvalin og þarf örugga öldrunarþjónustu síðasta spölinn en fær ekki nema neyðaraðstoð á bráðamóttöku, eftir alltof langa bið.

• Það særir þetta stolt þegar við sjáum sömu fréttirnar, ár eftir ár, af aðfluttu verkafólki sem er brotið á, án afleiðinga. Lögreglan hefur ekki bolmagn til að taka á þessu – og stjórnvöld sofa á verðinum.

• Það særir stoltið þegar þegar börn og unglingar þurfa að bíða mánuði og jafnvel ár eftir nauðsynlegri greiningu og þjónustu; þegar fólk sem glímir við fíkn fær ekki þá aðstoð sem það þarf á að halda; þegar við finnum að velferðarkerfið okkar virkar ekki eins og það á að gera.

Og ég spyr: Erum við stolt af því hvernig Íslandi hefur verið stjórnað af fráfarandi ríkisstjórn? Óstjórn í efnahagsmálum. Stefnuleysi í atvinnumálum. Vanræksla á samgöngu- og orkuinnviðum um land allt.

III.
Við getum gert betur. Forseti, ég veit að við getum það. Ég finn það á samtölum við fólkið í landinu að það er tækifæri til að fylkja okkur saman aftur um jákvæða pólitík og stórhuga stjórnmál: Nýtt upphaf – með traustri forystu.

Eins og einn stóratvinnurekandi sagði við mig á dögunum, með leyfi forseta: „Ég hefði aldrei haldið að ég myndi styrkja Samfylkinguna. En gjörðu svo vel, Kristrún. Við hlökkum bara til þegar það verður byrjað að stjórna landinu aftur, og gangi þér vel.“ Ég segi: Takk – við þurfum nákvæmlega þetta hugarfar.

Og sama með kokkinn sem ég spjallaði við í mötuneyti hjá iðnfyrirtæki rétt utan við Reykjavík, sem sagði: „Kristrún, ég hef alla ævi kosið Sjálfstæðisflokkinn. En þú færð allavega mitt atkvæði næst.“ Þá segi ég: Velkominn með – og takk fyrir traustið. Takk fyrir að taka eftir því að breytingarnar sem við höfum ráðist í eru raunverulegar. Og takk fyrir að þora að taka skrefið og skipta um flokk og gefa þessu tækifæri.

Við getum sameinast um svo margt. Nú er tími til breytinga. Og ef fólk vill tilheyra þjóð sem er stolt af sterkri velferð – þá er líklega best að kjósa Samfylkingu.