Hagsmunir íbúa Suðvesturhornsins

Þórunn,  kraginn, banner,
Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður

Staða sveitarfélaganna í Suðvesturkjördæmi var í brennidepli í kjördæmavikunni. Í Kraganum fóru þingmenn kjördæmisins saman á fundi með bæjarfulltrúum í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Kjósarhreppi og á Seltjarnarnesi. Suðvestrið er langfjölmennasta kjördæmi landsins en þar búa 111 þúsund manns og í því eru líka stærstu bæirnir utan höfuðborgarinnar, Kópavogur og Hafnarfjörður. Garðabær náði nýlega Akureyri að íbúafjölda með 20 þúsund íbúa.

Það er mikilvægt að hafa þessar staðreyndir í huga þegar rætt er um hagsmuni þessara sveitarfélaga og íbúanna sem byggja þau. Í málflutningi sveitarstjórnafólks mátti greina gildan sameiginlegan þátt, óháð stjórnmálaskoðunum. Sveitarstjórnafólk er upp til hópa búið að fá nóg af því að taka við illa fjármögnuðum verkefnum frá ríkinu. Það er líka búið að fá sig fullsatt af samskiptum við ríkið sem öðru fremur einkennast af valdaójöfnuði og ákveðnu virðingarleysi í garð sveitarfélaganna. Þetta kemur einna skýrast fram í málflokki fatlaðs fólks, eins viðkvæmasta og mikilvægasta verkefnis sem sveitarfélögin hafa tekist á hendur. En einnig þegar kemur að rekstri hjúkrunarheimila fyrir aldraða og í þjónustu við börn með fjölþættan vanda.

Ég hygg að við getum verið sammála um að verkefnin sem nefnd eru hér að ofan eru af þeirri gerð að þau skilgreina okkur sem velferðarsamfélag. Ef þeim er ekki sinnt af metnaði og alúð þá eykst kostnaðurinn við þau en minnkar ekki þegar fram í sækir. Hér er sorglega auðvelt að spara sér til tjóns með tilheyrandi áhrifum á lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna eins og dæmin sanna.

Alls staðar ræddum við samgöngur í kjördæminu. Mikil ánægja er með uppfærslu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og engan bilbug að finna á fólki þegar kemur að mikilvægi almenningssamgangna og þeirra miklu framkvæmda sem þeim fylgja. En á sama tíma geta nauðsynlegar samgönguúrbætur ekki beðið, til dæmis á Flóttamannaveginum svokallaða.

Vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins voru oft nefnd og ekki að furða þegar litið er til hinnar miklu fólksfjölgunar síðustu ára. Bæirnir eiga mismikið byggingarland og vilja skiljanlega nýta það vel. Engum blöðum er um það að fletta að möguleikar til húsnæðisuppbyggingar eru mjög miklir í Mosfellsbæ, þar sem skipulag Blikastaðalandsins og fleiri svæða er í deiglunni. En það er líka mikilvægt að sveitarfélög vaxi jafnt og þétt því að of hröð uppbygging getur reynst útgjaldaþung og haft slæm áhrif á fjárhagsstöðuna. Það hefur minn heimabær, Garðabær, fengið að reyna á liðnum árum.

Sanngjörn og skynsamleg tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er leiðarljós okkar í Samfylkingunni og mikið hagsmunamál íbúa í Suðvesturkjördæmi. Í mínum huga er dagljóst að endurskoðun skiptingarinnar er tímabær og nauðsynleg. Það stóra verkefni bíður nýs kjörtímabils.

Birtist í Morgunblaðinu 5. október 2024