Nýtt útspil: Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, kynnti í dag nýtt útspil flokksins á fjölmiðlafundi á planinu við Bónus á Egilsstöðum.
Nýja útspilið ber yfirskriftina Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum og þar er sett fram áætlun um að ná niður vöxtum á Íslandi með ábyrgri hagstjórn, aukinni festu í ríkisfjármálum og kerfisbreytingum til að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði.
„Lægri vextir eru fyrsta verkefnið. Stýrivextir hafa um og yfir 9% í heilt ár og verðbólga hefur verið langt yfir markmiði allt kjörtímabilið – en samt stefnir í 9 ár af hallarekstri ríkissjóðs samkvæmt áætlunum fráfarandi ríkisstjórnar. Nú er kominn tími á breytingar og við erum með plan,“ segir Kristrún Frostadóttir.
Vinna við útspilið var sett af stað á flokksstjórnarfundi Samfylkingar á Laugarbakka þann 20. apríl síðastliðinn. Þá fór í hönd 6 mánaða málefnastarf um land allt á 32 opnum fundum og með aðkomu fjölda sérfræðinga. Áður hefur Samfylkingin kynnt útspilin Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum og Kröfu um árangur í atvinnu- og samgöngumálum.
Bráðaaðgerðir og kerfisbreytingar í húsnæðismálum
„Í framkvæmdaplaninu setjum við fram bráðaaðgerðir til að hraða íbúðauppbyggingu og tryggja að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks frekar en sem fjárfestingarvara,“ segir Kristrún og vísar þar meðal annars til aðgerða sem lúta að því að taka stjórn á Airbnb og skammtímaleigu til ferðamanna.
„En svo boðum við líka kerfisbreytingar til lengri tíma. Þar erum við meðal annars að tala um nýja nálgun í skipulagsmálum, að löggjöfin verði færð til nútímans með einfaldari ferlum og að uppbygging nýrra íbúðahverfa með tilheyrandi innviðakostnaði verði gerð fjárhagslega sjálfbær fyrir sveitarfélög með sams konar hvötum og nágrannaþjóðir okkar beita. Þarna verður ríkisstjórn að leika lykilhlutverk og taka ábyrgð á þróun húsnæðismarkaðarins í heild.“
Samfylkingin leggur líka til breytingar á hlutdeildarlánakerfinu til að auka skilvirkni og fyrirsjáanleika og vill nýta ríkislóðir markvisst til byggingar íbúða, bæði til leigu og eignar.
Lægri vextir og tiltekt í ríkisrekstri
Í framkvæmdaplaninu eru sett fram áform um tiltekt í ríkisrekstri og aukna skilvirkni við ráðstöfun opinbers fjár. Samfylkingin vill lögfesta svokallaða stöðugleikareglu um afkomu ríkisins í samræmi við tillögur fjármálaráðs ESB. „Þannig tryggjum við að lög um opinber fjármál þjóni tilgangi sínum og aukum trúverðugleika hagstjórnar,“ segir í framkvæmdaplaninu þar sem kynntar eru aðgerðir til að bæta afkomu ríkisins án þess að auka skattbyrði vinnandi fólks.
Kristrún segir að með því að sýna festu í ríkisfjármálum og ná niður verðbólgu og vöxtum skapist svigrúm til að ráðast í hóflegar en markvissar aðgerðir, jafnt og þétt yfir kjörtímabilið, til að styðja betur við barnafjölskyldur og styrkja almannatryggingakerfið í þágu eldra fólks og öryrkja.
Örugg afkoma um ævina alla
Um þetta fjallar síðasti kafli framkvæmdaplansins, Örugg afkoma um ævina alla. Þar eru boðaðar breytingar á fæðingarorlofskerfinu í samræmi við frumvarp sem þingflokkur Samfylkingar hefur ítrekað lagt fram á Alþingi og lögð sérstök áhersla á kjör fólks sem ekki getur unnið vegna aldurs eða skertrar starfsgetu.
Samfylkingin heitir því að stöðva kjaragliðnun launa og lífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) þannig að greiðslur almannatrygginga til eldra fólks og öryrkja hækki árlega að lágmarki um sem nemur hækkun launavísitölu. Þá ætlar Samfylking að hækka frítekjumark ellilífeyris úr 25 í 60 þús. kr. á mánuði til þess að eldra fólk njóti meiri ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóði og tryggja að færri hái harkalegan bakreikning frá TR vegna vaxtatekna. „Þarna er kominn tími á breytingar og við erum með plan til að tryggja örugga afkomu fólks,,“ segir Kristrún.
Þetta er aðeins brot af þeim aðgerðum sem lagðar eru til í útspilinu. Kynnið ykkur Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum í heild og komið með okkur í baráttuna!