Bráðaaðgerðir í húsnæðismálum
Samfylkingin kynnti í síðustu viku framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum. Það var unnið í víðtæku samráði við kjósendur og félaga í Samfylkingunni.
Þetta er þriðja og síðasta útspil flokksins fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember. Hin tvö – Örugg skref og Krafa um árangur – hafa verið kynnt og hlotið góðar viðtökur. Við í Samfylkingunni leggjum þessa vinnu og tillögurnar í hendur kjósenda.
Samfylkingin er tilbúin, búin að vinna heimavinnunna í sínum kjarnamálum og reiðubúin til þess að setjast í ríkisstjórn á grundvelli hennar. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur frá upphafi talað skýrt um forgangsröðun verkefna í nýrri ríkisstjórn, sem byggist á þessari vinnu undir forystu hennar. Ég hvet fólk til að kynna sér tillögur okkar jafnaðarmanna í þessum þremur grundvallarmálaflokkum en þær má finna á vefnum okkar xs.is:
- Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum.
- Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum.
- Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum.
Fólksfjölgun á Íslandi hefur verið meiri en í nokkru öðru OECD-ríki síðustu tíu ár. Og innviðauppbyggingin hefur ekki verið í takt við fjölgunina. Að auki tökum við á móti rúmlega tveim milljónum ferðamanna árlega. Samfylkingin vill ráðast í bráðaðagerðir svo að stærri hluti íbúðarhúsnæðis nýtist sem heimili fólks fremur en fjárfestingarvara hinna efnameiri. Við viljum ná stjórn á Airbnb, herða eftirlit og takmarka heimagistingu við lögheimili eða sumarbústað. En 90 daga reglan verður að sjálfsögðu áfram í gildi. Við leggjum til að gististarfsemi í atvinnuskyni verði aðeins í samþykktu atvinnuhúsnæði en ekki íbúðarhúsnæði, óháð því hvenær rekstrarleyfi var gefið út. Samfylkingin vill líka heimila sveitarfélögum að leggja svokallaðan „tómthússskatt“ á íbúðir sem ekki eru í notkun. Það yrði fasteignaskattsálag með skýrum undanþágum. Tillögur okkar gera líka ráð fyrir að liðkað verði fyrir uppbyggingu færanlegs einingahúsnæðis til skammtímanota. Við viljum einnig skapa hvata til að breyta vannýttu atvinnuhúsnæði í íbúðir. Húsnæðisöryggi snýst um að heimili fólks séu ekki fjárfestingarvara hinna efnameiri.
Hægt er að grípa til ofantaldra bráðaaðgerða strax og með þeim er hægt að fjölga íbúðum á markaði um allt að tvö þúsund á næstu tveim árum, umfram það sem nú er gert ráð fyrir. Í nýjasta útspilinu má einnig finna tillögur Samfylkingarinnar um kerfisbreytingar á húsnæðismarkaði til langs tíma. Í því er líka fjallað um hvernig við hyggjumst ná tökum á ríkisrekstrinum, meðal annars með skynsamlegum skattbreytingum sem hitta launafólk ekki fyrir. Verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að koma aftur á efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi. Samfylkingin er tilbúin í það mikilvæga verkefni.